26.8.2009

Miðvikudagur, 26. 08. 09.

Kastljós sjónvarpsins var óvenjulegt að því leyti í kvöld, að þar voru menn í viðtölum, sem veittu viðspyrnu með rökum og af sannfæringu. Báðir ræddu þeir við Þóru Arnórsdóttur, sem heldur vel á hlut sínum sem spyrjandi.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, var fyrri viðmælandi Þóru. Hann fylgdi eftir ræðu sinni á aðalfundi félagsins í morgun, þar sem hann reifaði leiðir til að félagið gæti starfað áfram. Hann segir óvissu um það ráðast af afstöðu þeirra, sem fara með stjórn eða slit gamla Kaupþings og Glitnis. Samið hafi verið við alla stóra erlenda lánardrottna. Lýður snerist einnig gegn þeim hér í netheimum, sem ráðast að mönnum í skjóli nafnleyndar. Sú gagnrýni hans er bæði tímabær og réttmæt. Þessar nafnlausu svívirðingar eru sama eðlis og árásir skemmdarvarga á eignir manna í skjóli myrkurs. Þeirra, sem skemma eignir er leitað, hinir, sem skemma mannorð manna, ærast séu þeir gagnrýndir.

Ross Beaty, stjórnarformaður Magma Energy, sem hefur áhuga á að eignast OS Orku eða kaupa þar stóran hlut, var seinni viðmælandi Þóru. Ég ritaði um Magma hér á síðuna í síðustu viku og viðtalið við Beaty staðfesti þá skoðun, sem ég fékk við að kynna mér viðhorf hans með aðstoð Google, að hér væri á ferð einlægur áhugamaður um að fjárfesta í jarðvarmaorku og þekkingu Íslendinga á henni til hagsbóta fyrir Íslendinga og eigið fyrirtæki. Um er að ræða að beina 70 til 100 milljörðum króna inn í íslenskt hagkerfi. Bláfátækur fjármálaráðherra stórskuldugs ríkissjóðs og þjóðar þarf að hafa góð rök til að standa gegn því.

Báðir þessir athafnamenn tala á þessari stundu til þjóðar, sem er full tortryggni í garð þeirra, sem telja betra að treysta athafnamönnum fyrir fjármunum en stjórnvöldum og stjórnmálamönnum.

Í þætti í BBC World Service í gær benti einhver fræðimaður á, að annað væri að treysta kapítalistum, sem skapa arð af framleiðslu og verklegum framkvæmdum, en þeim kapitalistum, sem vildu aðeins skapa arð af fjármagni og tilfærslu þess. Hinir síðarnefndu hefðu ekki reynst traustsins verðir.

Ég setti í dag pistil á síðuna, þar sem ég ræði stöðu mála í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins.