Þriðjudagur, 04. 08. 09.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon efndu til blaðamannafundar í dag, án þess að sagt hafi verið frá spurningum til þeirra um viðbrögð vegna greina Evu Joly eða hvort ríkisstjórnin ætli að sigla í kjölfar hennar með baráttu fyrir málstað Íslands. ESB-fjölmiðlum þykir líklega óþægilegt að fylgja sjónarmiðum Joly eftir vegna gagnrýni hennar á framgöngu ESB í garð Íslendinga.
Ef marka má RÚV-fréttir var ekki heldur leitað svara við því hjá ráðherrunum, hvernig unnt væri að samræma þá skoðun Kristínar Árnadóttur, skrifstofustjóra upplýsingmála í utanríkisráðuneytinu, að stjórnarráðið ynni eins og „smurð vél“ að því að kynna málstað Íslands, og skoðun Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, um, að vegna skorts á kynningarstefnu og ágreinings innan ríkisstjórnarinnar gæti stjórnarráðið ekki stundað neitt kynningarstarf.
Þögnin um þessi mál stafar ekki af því, að lagt hafi verið lögbann við erfiðum spurningum til Jóhönnu og Steingríms J. að loknum ríkisstjórnarfundum.
Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var í N-Kóreu í dag og fékk tvær bandarískar blaðakonur lausar úr haldi. Látið er í veðri vaka, að þetta hafi verið einkaheimsókn. Augljóst er, að sá spuni á að milda þessi óvæntu bandarísku samskipti við harðstjórnina í N-Kóreu. Því var spáð, að kjarnorkuvopnaglamur N-Kóreu og handtaka blaðakvennanna mundi leiða til þess, að Kim Jong-Il, harðstjóri, gæti látið mynda sig jafnfætis háttsettum Bandaríkjamanni. Clinton tók að sér að verða á myndinni með Kim Jong-II í höfðuborginni Pyongyang. Blaðakonurnar eru lausar úr haldi. Hvað gerist með kjarnorkuvopnin?