10.8.2009

Mánudagur, 10. 08. 09.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hvetur Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, til þess í grein í Morgunblaðinu í morgun að ræða við leiðtoga annarra landa um Icesave-deiluna og gera þeim grein fyrir því, að samningur þeirra Svavars Gestssonar og Steingríms J. Sigfússonar fái aldrei brautargengi á alþingi. Honum verði að breyta eða leita til dómstóla ella.

Anne Sibert, prófessor í hagfræði í London, ritar 10. ágúst grein á vefsíðuna Vox um Evrópumálefni í tilefni af því, að Grænlendingar hafa tekið stjórn eigin mála í sínar hendur. Prófessorinn telur hæpið, að Grænlendingum sé unnt að treysta fyrir eigin framtíð og nefnir Ísland sem dæmi um, að smáríki eigi erfitt með að fóta sig í veröldinni. Í lok greinar sinnar segir hún:

Mörg mjög lítil ríki eru eyjar, og því einangruð. Erfiðara en ella er fyrir háttsetta embættismenn að ferðast til nágrannalanda, ef þeir búa á afskekktum eyjum en ef þeir búa í Lúxemborg. Þetta leiðir til þeirrar hættu, að þeir, sem móta stefnu á fjarlægum stöðum geti orðið heimalningslegir í hugsun og þeir hafi ekki aðgang að ráðum, sem starfsbræður þeirra í útlöndum kynnu að gefa. Það er þess vegna mikilvægt að háttsettir embættismenn á stöðum úr alfaraleið leggi sig fram um að sækja ráðstefnur og önnur mót sérfræðinga erlendis.

Síst af öllu ætla ég að draga hagfræðilega þekkingu prófessorsins í efa. Þessi almenna athugasemd hennar um nauðsyn þess, að eyjaskeggjar sæki ráðstefnur í öðrum löndum, ber hins vegar ekki vott um mikla þekkingu prófessorsins á því, hvernig málum hefur verið háttað hér á landi. 

Í samanburðinum við Lúxemborg hefði mátt geta þess, að fáein ár eru liðin, frá því að háskóla var komið á fót þar í landi. Var meðal annars kallað á Pál Skúlason, prófessor og fráfarandi rektor Háskóla Íslands, til að taka sæti í ráði hins nýja háskóla og miðla af reynslu sinni.

Þótt íslenskir bankar hafi hrunið, er óþarft að gefa þjóðinni eða embættismannakerfi hennar fáfræðistimpil. Með því er talað á ómaklegan hátt niður til þjóðarinnar. Engar úttektir á þekkingarstigi hér á landi benda til þess, að Íslendingar standi öðrum þjóðum að baki á þann veg, sem prófessorinn gefur til kynna. Þá er barnalegt og ber í besta falli þekkingarskorti vitni að álíta íslenska stjórnmálamenn heimóttarlegri en stjórnmálamenn annars staðar - nema sú stund sé upp runnin nú, þegar ráðherrar taka ekki upp málstað þjóðarinnar á verðugan hátt gagnvart þeim, sem ganga freklega á hlut hennar.