18.8.2009

Þriðjudagur, 18. 08. 09.

Í dag, á afmælisdegi Reykjavíkurborgar, fórum við Rut í Borgarskjalasafnið. þegar Guðfinna Guðmundsdóttir, ekkja Þórðar Björnssonar, ríkissaksóknara og bæjarfulltrúa, afhenti ferðabókasafn manns síns, liðlega 2000 titla, skjalasafninu til varðveislu og Hann Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, þakkaði gjöfina.

Í tilefni afhendingarinnar var sýning á hluta af skjalasafni Þórðar opnuð og kennir þar margra grasa. Hann hefur meðal annars fengið úrklippufyrirtæki erlendis í þjónustu sína við að safna blaðagreinum um Ísland. Er ólíklegt, að slíkt úrklippusafn sé víða aðgengilegt.

Guðfinna, ekkja Þórðar, hefur skráð bókasafnið og er skráin: Erlendar frásagnir um Ísland - Ferðabókasafn Þórðar Björnssonar alls 94 síður.

Bragi Kristjónsson, bóksali, ritar formála að bókaskránni og segir meðal annars:

„Söfnun Þórðar Björnssonar stóð yfir í rúma hálfa öld. Útsjónarsemi hans og elja, heiðarleiki og vöndugleiki öfluðu honum góðra sambanda í fornbókaheiminum, bæði hérlendis og erlendis og hafði hann víða forgang vegna þess, hve þekkt safn hans varð í fyllingu tímans. Var honum þó víðsfjarri allt skrum og sýndarmennska og nær er mér að halda, að aðeins örfáir menn hafi litið safn hans augum meðan hann lifði og vann að öflun þess.“

Ég man eftir því, þegar Sigurður Benediktsson var með bókauppboð í Þjóðleikhúskjallaranum og Þórður var þar í fremstu röð bjóðenda. Þótti okkur félögum gaman að fylgjast með og velta fyrir okkur verðgildi bóka og bókasafna. Nú þegar bankabækur eru ekki hafðar í jafnmiklum hávegum og verið hefur um nokkurt skeið, kann áhugi á annars konar bókum og verðmæti þeirra að aukast. Fréttir herma, að spurn vaxi eftir lopa og ull. Hið sama á kannski eftir að gerast með gamlar bækur.