28.8.2009

Föstudag, 28. 08. 09.

Icesave-málinu lauk á alþingi í dag með því að stjórnarflokkarnir samþykktu það. Tveir sjálfstæðismenn, allir framsóknarmenn og þrír, sem kjörnir voru undir nafni Borgarahreyfingarinnar voru á móti. Ég hefði vænst þess, að fleiri sjálfstæðismenn yrðu á móti. Á hinn bóginn er ljóst, að samstarf þingmanna Sjálfstæðisflokksins og hóps innan vinstri-grænna undir forustu Ögmundar Jónassonar leiddi til þess, að Icesave-málið gjörbreyttist í meðförum þingsins.

Helsta stjórnmálafrétt RÚV klukkan 18.00 var síðan kafli úr ræðu Steingríms J. Sigfússonar á fundi flokksráðs vinstri-grænna á Hvolsvelli, þar sem hann jós úr skálum reiði sinnar yfir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hélt áfram með sama skítkastið og hann mun stunda, þar til hann sér þann eina kost til að halda völdum, að eiga samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Steingrímur J. talar jafnilla um Sjálfstæðisflokkinn núna og hann talaði um aðild að ESB, þar til hann samþykkti hana, og um Icesave-samningana, þar til hann gaf Svavari Gestssyni heimild til að skrifa undir þá.

Í raun er makalauast að sama dag og Icesave-málið fer í gegn um alþingi, sem ekki hefði verið gerst án atbeina sjálfstæðismanna, ræðst flutningsmaður Icesave-þingmálsins á sjálfstæðismenn með svívirðingum. Fréttamaðurinn, sem flutti fréttina, setti hana ekki í þessa samhengi heldur birti hana sem mikilvæga pólitíska frétt.

Eva Joly, sérlegur ráðgjafi vegna sakarannsóknar á bankahruninu, sagði Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ástunda sýndarmennsku með tillögu sinni um nefnd til að kanna skaðabórakröfu á hendur þeim, sem bera ábyrgð á hruninu. Honum væri nær að styðja þá, sem þegar væru farnir af stað til að rannsaka málið.