12.8.2009

Miðvikudagur, 12. 08. 09.

Það er vel af sér vikið hjá hinum ungu mönnum, sem halda úti vefsíðunni netvarpid.is, að birta þannig viðtal við rússneska sendiherrann á Íslandi, að veki þjóðarathygli og örugglega einnig út fyrir landsteinana.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í tilefni af viðtalinu en margt fleira merkilegt kemur þar fram en ég nefni.  Sendiherrann kvartar undan, að Eva Joly sé af gamla skólanum, þegar hún ræðir um Rússland. Sjálfur er hann einnig af gamla skólanum, því að hann missti út úr sér Soviet Union í stað Rússlands, þegar hann var að réttlæta ofríki Pútin-stjórnarinnar gegn Georgíu.

Þá, sem standa að netvarpid.is, langaði að gera eitthvað skemmtilegt í sumarleyfi frá námi. Fengu lánaða starfræna tökuvél og hljóðnema og lögðu land undir fót. Þeir komu tveir heim til mín síðdegis mánudaginn 10. ágúst, ræddu við mig í hálftíma og birtu um níu mínútna viðtal á netinu morguninn eftir. Viðtalið við mig snýst að nokkru um hið sama og við rússneska sendiherrann. Ég hafði hins vegar ekki vitneskju um þá skoðun sendiherrans, að stóru láni Rússa hefði verið hafnað af þeirri ríkisstjórn, þar sem ég sat sl. haust.

Fréttavinkill hinna hefðbundnu fjölmiðla er svo þröngur, að óreyndir, áhugasamir skólanemar eiga auðvelt með að bregða nýju og forvitnilegu ljósi á mál, sem hafa verið lengi til umræðu. Þegar ríkisstjórn spólar jafn lengi í sama farinu og stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á Icesave-svellinu, hljóma fréttir fljótt eins og slitin plata. Hvað skyldi oft hafa verið rætt við Guðbjart Hannesson í RÚV  til að fá það eitt fram, að fjárlaganefnd fundi áfram? Hvernig nenna fréttamenn alltaf að vera að tönnlast á þessu sama? Af hverju er ekki leitað að nýjum fleti? Til dæmis sagt frá því, hve oft þessi sami Guðbjartur hefur sagt, að málið þokist í rétta átt í fjárlaganefnd?

The Financial Times birti leiðara í dag til stuðnings málstað Íslendinga (ekki ríkisstjórnar Íslands) í Icesave-málinu. Hið sama á við um leiðarann og grein Evu Joly 1. ágúst, hann fer líklega í taugarnar á forsætisráðherra og fjármálaráðherra, því að höfundur hans hvetur til þess, að málstaður Íslands verði tekinn upp að nýju við hollensk og bresk stjórnvöld.