16.8.2009

Sunnudagur 16. 08. 09.

Til að ná fram ESB-aðildarumsókn á þingi þurfti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á aðstoð stjórnarandstöðuþingmanna að halda. Til að komast að niðurstöðu í Icesave-málinu í fjárlaganefnd þurfti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á aðstoð stjórnarandstöðu að halda.

Stjórnarandstaðan er einskonar hjálparsveit ríkisstjórnarinnar í hennar erfiðustu málum. Hvers vegna? Til að framlengja líf ríkisstjórnar, sem þykist styðjast við meirihluta á þingi en hefur hann ekki, þegar mest á reynir?  Hafa þau Jóhanna, Steingrímur J. og félagar sýnt og sannað, að þau séu trausts stjórnarandstöðunnar verð?

Í Listasafni Árnesinga í Hveragerði er sýning á verkum Nínu Tryggvadóttur og Gerðar Helgadóttur en Skálholtskirkja hýsir glæsileg verk þeirra beggja og má kynnast gerð þeirra á sýningunni.