Föstudagur, 07. 08. 09.
Ég heyrði í útvarpi, að þessi dagur væri sérstakur, þar sem unnt væri að finna þessa tímasetningu: 12.34.56.7.8.9.
Reiptogið um Icesave heldur áfram. Undarlegt er að hlusta á Steingrím J. Sigfússon tala um málið á þann veg, að alþingi geti búið því einhverja umgjörð, sem gildi hér en ekki gagnvart viðmælendum erlendis. Þetta er argasta blekking. Öll skilyrði sett af alþingi snerta samskipti við Breta og Hollendinga.
Miðað við yfirlýsingar stjórnarsinna í hópi vinstri-grænna kemst Icesave ekki út úr alþingi, án þess að stjórnarandstaðan veiti málinu brautagengi. Ætli Steingrími J. Sigfússyni sé þetta ekki ljóst? Heift hans í garð Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi 6. ágúst var ekki til marks um viðleitni til að skapa breiða samstöðu á þingi.