6.8.2009

Fimmtudagur, 06. 08. 09.

Fréttir birtast nú um, að rússneskir kjarnorkukafbátar séu eða hafi verið á svipuðum slóðum undan Atlantshafsströnd Bandaríkjanna og hinir sovésku á tímum kalda stríðsins. Bandarískur sérfræðingur segir, að þetta sé í fyrsta sinn á 15 árum, sem rússneskir kafbátar sigli svo langt suður N-Atlantshaf. Um miðjan júlí var skýrt frá ferðum rússneskra kafbáta í nágrenni Íslands.

Ríkisstjórnin hefur lagt á flótta í Icesave-málinu. Hún hefur hætt að leiða málið og býr sig undir að alþingi taki það í höndum hennar. Steingrímur J. Sigfússon lætur enn eins og aðrir en hann beri pólitíska ábyrgð á þeim samningi, sem gerður hefur verið vegna Icesave.  Ábyrgðin er hans og hefur Samfylkingin verið einstaklega lagin við að árétta það í stjórnarsamstarfinu. Jóhanna Sigurðardóttir fer undan í flæmingi, þegar því er hreyft, að hún eigi að bregða undir sig betri fætinum og ræða við starfsbræður í Bretlandi og Hollandi til að skýra málstað Íslands. Upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins segir ríkisstjórnina ekki hafa mótað neina kynningarstefnu í málinu, enda sé hún klofin í afstöðu til þess.

Ánægjulegt er að lesa fréttir um mikið álit almennings á lögreglunni og traust til starfa hennar. Í dag féll dómur í Papeyjarmálinu ákæruvaldinu í hag, sem sannar enn, hve fagmannlega lögregla stóð að úrlausn þess flókna máls.