15.8.2009

Laugardagur, 15. 08. 09.

Fjárlaganefnd gekk frá textum með fyrirvörum við Icesave-samningana á þriðja tímanum aðfaranótt laugardagsins, án þess að framsóknarmenn stæðu að þeim. Þeir ætluðu enn að hugsa málið. Bjarni Benediktsson sagði í hádegisfréttum RÚV, að fyrirvararnir jafngiltu því, að samningi Svavars Gestssonar væri hafnað. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sögðu í kvöldfréttum, að fyrirvararnir væru umgjörð um samningana. Það þýðir, að samningarnir standi óbreyttir og Bretum og Hollendingum sé tilkynnt um afstöðu alþingis, án þess að hróflað sé við samningnum. Þannig vill Svavar Gestsson, að staðinn sé vörður um meistarastykki hans.

Sé um slíkan grundvallarágreining að ræða milli formanns Sjálfstæðisflokksins og formanna ríkisstjórnarflokkanna, er borin von, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykki að veita ríkisstjórninni umboð til að halda á málinu eins og Jóhanna og Steingrímur J. vilja. Þau eru ábyrg fyrir Icesave-samningunum. Töfin á afgreiðslu þingmálsins stafar af ágreiningi milli stjórnarflokkanna. Nú segjast Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ögmundir Jónasson ánægð. Er málið þá ekki í höfn?

Á göngu minni við rætur Þríhyrnings hef ég fundið golfkúlur og furðað mig á þeim. Hrafninn hefur flutt þær af golfvellinum á Hellishólum. Haldið sig vera með egg.