Þriðjudagur, 25. 08. 09.
Nú eru fjórar vikur liðnar, frá því að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu fór frá ráðherraráði þess til umsagnar hjá framkvæmdastjórn sambandsins. Í aðdraganda þess, að alþingi samþykkti umsóknina, var því haldið blákalt fram, að hún ein yrði til þess að styrkja gengi krónunnar. Ef ég veit rétt hefur gengið fallið um 10% á þessum fjórum vikum. Hvar eru þeir allir spekingarnir, sem sögðu, að hið gagnstæða mundi gerast? Hefur enginn ESB-fjölmiðill áhuga á að leita skýringa á þessu?
Fjárlaganefnd afgreiddi Icesave-málið frá sér í annað sinn, það er nú milli annarrar og þriðju umræðu í þinginu, í dag. Þingmenn allra flokka nema framsóknarmenn standa að áliti nefndarinnar, sem sagt er, að herði enn á fyrirvörum. Ef ráðherrar og stjórnarliðar túlka þessa niðurstöðu nefndarinnar á þann veg, að ekki þurfi að taka málið upp að nýju við Breta og Hollendinga, sé ég ekki til hvers allir þessir fundir hafa verið í fjárlaganefnd.