Sunnudagur, 09. 08. 09.
Guðbjartur Hannesson heldur áfram að berja í brestina fyrir ríkisstjórnina í fréttatímum. Hann kallar fjárlaganefnd saman dag eftir dag án þess að komast að niðurstöðu og boðar, að enn meiri fjöldi manna verði kallaður til fundar á morgun en í dag. Furðulegt er, að Guðbjartur skuli ekki átta sig á því, að þetta mál leysist ekki á vettvangi fjárlaganefndar, þótt Jóhanna Sigurðardóttir hafi talið honum trú um það. Málið leysist ekki nema stjórnarflokkarnir komi sér saman um niðurstöðu eða Jóhanna taki pokann sinn og víki fyrir öðrum. Niðurstaða verður að nást í ríkisstjórninni og þingflokkum hennar.
Öllum er ljóst, að Jóhanna vill ekki ræða Icesave við annarra þjóða menn. Hitt kemur hins vegar æ meira á óvart, að hún vilji ekki heldur ræða málið við samherja sína í ríkisstjórn til að finna lausn á því en feli Guðbjarti Hannessyni að gefa innistæðulausar yfirlýsingar. Guðbjartur gegndi þessu hlutverki fyrir Jóhönnu vikum saman sem forseti alþingis og sat að lokum uppi með, að málið, sem Jóhanna vildi í gegn, stjórnarskrármálið, dagaði uppi. Það skyldi þó ekki fara eins fyrir Icesave-málinu undir forystu Jóhönnu?
Spunafólk Samfylkingarinnar skrifar um vandræðin vegna Icesave á sama hátt og um stjórnarskrármálið. Látið er í veðri vaka, að það sé meira en sjálfsagt að sjálfstæðismenn komi Jóhönnu til bjargar, og sé eiginlega hreinn aumingjaskapur ef þeir gera það ekki.
.