Miðvikudagur, 05. 08. 09.
Einkennilegt er að kynnast því, að álitsgjafinn og RÚV-þáttastjórnandinn Egill Helgason skuli ganga fram fyrir skjöldu og gagnrýna mig fyrir að taka undir með Evu Joly, og ég finni að því, að stjórnvöld nýti sér ekki öfluga málsvörn hennar. Þetta gerði Egill á bloggsíðu sinni í dag og svaraði ég honum með pistli hér á síðunni, en pistill minn birtist einnig á www.amx.is.
Eftir að svar mitt birtist endurtekur Egill sömu rulluna um þá Valtý Sigurðsson og Boga Nilsson í nýju bloggi. Þá talar hann enn niður til Ólafs Þórs Haukssonar og telur það til marks um virðingarleysi fyrir embætti sérstaks saksóknara, að þar þurfi menn að sækja um meiri fjárveitingar og rökstyðja þær. Af þessu ræð ég, að Agli er um megn að leggja óhlutdrægt mat á þær ráðstafanir, sem gripið var til strax eftir hrunið innan réttarvörslunnar.
Þá segir Egill vanda minn þann, að hafa setið í ríkisstjórn á tíma einkavæðingarinnar og gefur til kynna, að þess vegna megi ég ekki hafa skoðun á því, sem nú sé að gerast. Allt sem á daga mína dreif sem ráðherra kemur fram hér á þessum síðum, vefsíðan geymir stjórnmálasögu mína síðan 1995. Þangað á Egill að leita vilji hann gagnrýna störf mín en ekki annað. Að sjálfsögðu gerir hann það ekki heldur fimbulfambar um annað. Þá segir Egill um eigin fordóma:
„Það er einfaldlega staðreynd og kemur hlutdrægni eða óhlutdrægni ekki nokkurn skapaðan hlut við.“
Með þessum orðum er hann að verja stöðu sína sem þáttastjórnandi hjá RÚV, en þeim ber lögum samkvæmt að gæta óhlutdrægni í störfum sínum. Ef þessi skrif Egils eru að hans mati til marks um óhlutdrægni, skilur hann ekki inntak þess orðs. Eða kannski á bara að hafa útvarpslögin að engu, þegar hann á í hlut? Hugsi hann þannig, ferst honum illa að skammast yfir „einkavinavæðingu“ undanfarin ár. Í því hugtaki felst, að hvorki sé gætt óhlutdrægni né farið að lögum.
Seinni pistli sínum lýkur Egill á þessum orðum:
„Björn kallar það dylgjur þegar ég segi að hann og hans menn hafi ekki fagnað aðkomu Evu Joly. En finna menn einhver orð á vefsíðu hans – sem hann uppfærir daglega – eða á vefnum AMX sem benda til annars?“
Egill segir þannig að lokum, að úr því að ekki sé að finna fagnaðarboðskap á vefsíðu minni um „aðkomu Evu Joly“, geti hann haldið því fram, án þess að vera með dylgjur, að ég og „hans menn“, hverjir sem þeir nú eru, hafi ekki fagnað Evu Joly. Reynsla mín hefur kennt mér, að best sé fyrir mig að láta sem fæst orð falla um ákæruvaldið eða störf þess, þegar rannsókn efnahagsbrota fer fram. Að þeirri varkárni sé snúið á þann veg, sem Egill Helgason kýs að gera, sannar enn rökþrot hans.