3.8.2009

Mánudagur, 03. 08. 09.

Enginn íslenskur almannatengill hefði getað séð til þess, að grein eftir íslenskan stjórnmálamann birtist í fjórum blöðum samtímis í jafnmörgum löndum líkt og gerðist, þegar Eva Joly birti sama dag grein til varnar Íslandi í Morgunblaðinu, Aftenposten (Ósló), The Daily Telegraph (London), Le Monde (París). Í raun er sjaldgæft að stjórnmálamenn eða aðrir fái slíka samræmda birtingu aðsendrar greinar.

Við því hefði mátt búast, að af hálfu ríkisstjórnarinnar reyndi einhver að sigla í kjölfar Joly til að fylgja málstað Íslands eftir. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Hið eina, sem heyrst hefur úr stjórnarherbúðunum, er nöldur Hrannars B. Arnarsonar í garð Joly. 

Ástæðan fyrir því, að íslensk stjórnvöld nýta sér ekki málflutning Joly, er, að þau eru ósammála Joly. Hin sorglega staðreynd er, að ríkisstjórn Íslands vill ekki berjast fyrir rétti íslensku þjóðarinnar gagnvart Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu með þeim rökum, sem Joly beitir í grein sinni.

Fréttir af umferð um helgina í beinni útsendingu frá leiðum til borgarinnar í kvöldfréttatímum sjónvarpsstöðvanna virðast frekar vera fluttar af gömlum vana en vegna þess að eitthvað fréttnæmt sé að gerast. Umferðin var ekkert meiri en um venjulega helgi.

Fréttir RÚV af þjóðarpúlsi Gallups og fylgi flokka í Reykjavík, þegar Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt um 11% milli kannanna en Samfylking tapar 10% eru sérkennilegar, svo að ekki sé meira sagt. Þær snúast um, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki náð sama fylgi og hann fékk í kosningum 2006. Fréttapunkturinn er auðvitað sá, að Sjálfstæðisflokkurinn er að sækja í sig veðrið eftir mikla erfiðleika á kjörtímabilinu en Samfylkingin undir forystu Dags B. Eggertssonar, varaformanns flokksins, er á hröðu undanhaldi.

RÚV segir ekki fréttir af fylgi flokka á landsvísu samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Hvað veldur? Að fylgi stjórnarflokkanna hafi hrapað svo hratt síðustu daga könnunarinnar, að hún sé ekki marktæk sé litið yfir 30 daga?