14.8.2009

Föstudagur, 14. 08. 09.

Undarlegt var að hlusta á stjórnarþingmennina Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformann vinstri-grænna, og Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingar, tala fjálglega um nauðsyn þess í Kastljósi kvöldsins, að nú þyrfti að leggja rækt við ný vinnubrögð í stjórnmálunum og laða sem flesta til samstarfs í mikilvægum málum, þingið yrði að fá góðan tíma til að ræða Icesave og skoða allar hliðar málsins.

Halda einhverjir, að þau hefðu talað svona, ef stjórnarflokkarnir væru ekki í bullandi vandræðum með málið og kæmu sér ekki saman um, hvernig ætti að afgreiða það?

Skemmst er að minnast ESB-aðildarumsóknarinnar, sem Samfylkingin þröngvaði í gegnum þingið með vísan til þess, að vinstri-grænir hefðu myndað ríkisstjórnina með loforði um, að styðja ESB-aðilidina.

Ágreiningurinn á alþingi um Icesave er þess eðlis, að annað hvort hefjast viðræður við Breta og Hollendinga aftur eða ekki er um samkomulag við stjórnarandstöðuna að ræða.

Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, var heiðursgestur á 10 ára afmæli vinstri-grænna. Nú hefur hún ákveðið að hlutast til um íslensk innanlandsmál  og flokksdeilur vinstri-grænna og sagt þeim að styðja Steingrím J., AGS og Icesave, annars fái Íslendingar ekki norskt fé að láni. Halvorsen bregst þannig við ummælum Ögmundar Jónassonar í norskum fjölmiðlum. Þetta sannar enn, að Steingrímur J. sækir stuðning helst til þeirra, sem setja Íslendingum afarkosti, í stað þess að fá þá til að falla frá þeim.