Mánudagur, 24. 08. 09.
Fyrsti þáttur minn á ÍNN er kominn á netið. Viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra frá 19. ágúst. Þáttinn má skoða hér.
Í kvöld var ég á fundi hjá utanríkisnefnd Sambands ungra sjálfstæðismanna og svaraði spurningum, sem snerust um Evrópusambandið og Ísland.
Icesave-málið sýnir í hnotskurn, hvað gerist, ef of mikil fljótaskrift er á niðurstöðu í samningum milli ríkja um mikilvæg hagsmunamál. Þingflokkar Samfylkingar og vinstri-grænna héldu, að unnt yrði að sigla Icesave tiltölulega lygnan sjó í gegnum alþingi. Raunin er önnur, vegna þess að spilin voru ekki lögð á borðið og sýnt fram á, að allir þræðir málsins hefðu verið raktir til enda.
ESB-málið er í svipuðum farvegi og Icesave, því að þótt alþingi hafi samþykkt aðildarumsókn er hún bæði slaklega undirbúin og naut of lítils stuðnings á þingi til að reynsluboltarnir í Brussel trúi því, að Íslendingar muni samþykkja aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.