22.8.2009

Laugardagur, 22. 08. 09.

Klukkan 10.30 var ég í Norræna húsinu og hitti 20 ritstjóra, blaðamenn og útgefendur frá Molde í Noregi. Ræddum við saman til klukkan 12.00 um stöðu mála hér á landi. Aðstaða til slíks fundar í sal Norræna hússins er eins og best verður á kosið og var vel að öllu staðið af hússins hálfu.

Ég var meðal annars spurður um Norðmann í stöðu seðlabankastjóra hér á landi og hvernig hann hefði reynst miðað við það, sem áður hefði verið. Sagði ég setningu hans hafa vakið spurningar um lögmæti samkvæmt sjálfri stjórnarskránni.  Hann hefði sagt meginverkefni sitt verða að styrkja gengi krónunnar. Við starfslok hans, hefði gengi krónunnar verið lægra en nokkru sinni áður. Það væri greinilega ekki heiglum hent að stjórna Seðlabanka Íslands.

Að Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri-grænna, hafi úr forsetastóli á alþingi vítt Tryggva Þór Herbertsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að hafa notað orðið „vítavert “ í þingræðu er með ólíkindum. Þessi siðavendni Álfheiðar er í hróplegri andstöðu við framgöngu hennar sjálfrar í ræðustól þingsins eða á göngum þinghússins á liðnum vetri, þegar efnt var til mótmæla innan þess og utan. Þá var hún í liði með þeim, sem sýndu alþingi og störfum þess svo mikla óvirðingu, að lögregla varð að skerast í leikinn.