8.8.2009

Laugardagur, 08. 08. 09.

Fréttir eru sagðar af því, að meðal þingmanna vinstri-grænna magnist andstaða við Icesave. Skilyrði þessara þingmanna við samþykkt frumvarps um ríkisábyrgð vegna samninganna um Icesave séu þess eðlis, að samningarnir verði í raun marklausir. Einkennilegt er, að í fjölmiðlum skuli sagt frá þessu án frekari skýringa um áhrif þessarar uppreisnar í þingliði ríkisstjórnarinnar á líf hennar og störf.

Helst mætti ætla, að stjórnmálafréttaritarar fjölmiðlanna telji bara sjálfsagt, að stjórnarandstaðan hlaupi undir bagga með ríkisstjórninni til að bjarga henni frá eigin Icesave-klúðri. Eftir þann björgunarleiðangur geti svo hin óhæfa ríkisstjórn haldið áfram að spóla í sama hjólfarinu, eins og ekkert sérstakt hafi í skorist.

Jóhanna Sigurðardóttir er eins og stikkfrí. Enginn spyr hana um niðurstöðu Icesave-málsins. Í sí og æ er verið að ræða málið við Guðbjart Hannesson, formann fjárlaganefndar. Hann fer með sömu rulluna dögum saman. Málið sé alveg að komast úr nefnd hans, þótt hann viti að vísu ekki hvernig eða hvenær.  Vandræðagangur Guðbjarts endurspeglar ráðleysi ríkisstjórnarinnar.

Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndar alþingis á bankahruninu, dró upp dökka mynd af viðfangsefni nefndarinnar og væntanlegum niðurstöðum í RÚV í dag. Mátti skilja orð hans á þann veg, að bankakerfið hefði ekki aðeins vaxið efnahag þjóðarinnar yfir höfuð heldur einnig stjórnkerfinu. Þegar slík skriða fer af stað í þjóðfélagi, þarf engan að undra, þótt margir láti undan síga og verði meðvirkir. Má enn minna á þá skoðun, sem átti víða hljómgrunn, að stjórnmálamenn og stjórnvöld skyldu halda sér til hlés til að fipa ekki fjármálasnillingana.