Fimmtudagur, 27. 08. 09.
Icesave-umræðunni er að ljúka á alþingi. Frumvarp ríkisstjórnarinnar hefur tekið stakkaskiptum vegna klofnings í röðum hennar og frumkvæðis stjórnarandstöðunnar til að bjarga því, sem bjargað verður undir forystu ráðherra án þreks til að taka mál þjóðarinnar að nýju upp við Breta og Hollendinga. Ég ítreka þá skoðun, að stjórnarflokkarnir eigi að bera alla ábyrgð á lokaafgreiðslu málsins.
Vegna þess, sem ég sagði hér á síðunni í gær um umræður í Kastljósinu segir Egill Helgason á vefsíðu sinni í dag:
„Útrásarvíkingurinn sem skuldar íslenska bankakerfinu 250 milljarða, tók stórar stöður gegn gjaldmiðlinum um leið og hann var að lána löndum sínum í erlendri mynt í gegnum eignaleigufyrirtæki sitt, hefur sett sparisjóði kringum landið á hausinn og tæmt lífeyrissjóði og dómsmálaráðherra hrunstjórnarinnar sem setti tvo vanhæfa menn til að rannsaka hrunið, menn sem áttu að rannsaka syni sína, skar niður í efnahagsbrotadeildinni, en kom loks á stofn embætti saksóknara með 50 milljón króna fjárveitingu eru sammála um hvað sé mesta vandamálið á Íslandi:
Bloggið.
Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.“
Egill Helgason fer með rangt mál, þegar hann segir, að ég hafi „sett“ þá Valtý Sigurðsson og Boga Nilsson til að rannsaka bankahrunið. Ég gerði það ekki. Þá er einnig rangt, að ég hafi skorið niður í efnahagsbrotadeildinni. Ég setti sérstakan ríkissaksóknara til að ljúka Baugsmálinu og var sakaður um fjáraustur af því tilefni. Í þriðja lagi er rangt, að ég hafi ætlað sérstökum saksóknara 50 milljónir til að rannsaka bankahrunið. Það var fyrsta fjárveiting til að koma embættinu af stað. Egill sannar með þessum dæmalausu rangfærslum, að bloggið er vandamál fyrir suma. Mesta vandamálið fyrir bloggið er hópurinn, sem notar það undir nafni eða nafnlaust til að fara með ósannindi um annað fólk. Vefsíða Egils er akur fyrir slíka iðju og sjálfur gefur hann tóninn, eins og hér sannast enn og aftur.
Nafnlaus skrif eiga rétt á sér á netinu eins og annars staðar, enda innan marka velsæmis og hvorki uppspuni né tilraun til að svipta fólk ærunni.