11.8.2009

Þriðjudagur, 11. 08. 09.

Í dag birtist viðtal við mig á vefsíðunni Netvarp en þar ræðir Sindri M. Stephensen við mig um utanríkismál, Icesave, tengsl við Breta og Rússa. Hér má skoða viðtalið.

Fjölmiðlar flytja nú fréttir af ágreiningi meðal þingmanna vinstri-grænna um ICESAVE-samningana. Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, hefur tekið forystu gegn ICESAVE í þingflokki vinstri-grænna. Hann stillir sér þar upp gegn Steingrími J. Sigfússyni, flokksformanni.

Aðeins fáeinar vikur eru liðnar síðan Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, andmælti stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-málum. Steingrímur J. taldi sjálfsagt og eðlilegt, að Jón hefði sérskoðun á ESB-málum. Skoðun Ögmundar er ekki litin sömu augum og eðlilega er rætt um upplausn stjórnarsamstarfsins, verði ICESAVE-samningum hennar hafnað af alþingi.

Ögmundur Jónasson sagt fyrir svörum í Kastljósi og svaraði Sigmari Guðmundssyni með því einu að ICESAVE málið væri svo stórt, að um það ættu ekki að gilda neinar venjulegar leikreglur stjórnmálanna. Þótt Ögmundur væri að tala þvert á orð Steingríms J. í Kastljósi í síðustu viku sagðist hann ekki vera að gera það og komst upp með slíkar fullyrðingar með því að segja, að hann vildi að ICESAVE færi í gegnum þingið 63:0, af því að málið væri svo stórt!

Kastljósið er kynnt sem raunveruleikaþáttur í sjónvarpi en í meðförum þeirra Sigmars og Ögmundar breyttist Kastljósið í óraunveruleikaþátt. Hið versta er þó, að þessi óraunveruleiki á vaxandi hljómgrunn innan ríkisstjórnarflokkanna sem afsökun þeirra fyrir að afgreiða ICESAVE með og á móti til að ríkisstjórnin haldi lífi.