31.8.2009

Mánudagur, 31. 08. 09.

Fundarsalur Þjóðminjasafns var þéttsetinn í hádeginu í dag, þegar Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Varðberg, ásamt Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Stofnun stjórnmála og stjórnsýslu í Háskóla Íslands boðuðu til fundar til kynningar á Svartbók kommúnismans í þýðingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

Göran Lindblad, þingmaður frá Svíþjóð og formaður stjórnmálanefndar þings Evrópuráðsins í Strassborg, flutti erindi á fundinum. Hann leiddi í ársbyrjun 2006 ályktun um fordæmingu á ofbeldisverkum alræðisstjórna kommúnista til samþykktar á þinginu. Sagði hann þetta fyrstu ályktun af þessum toga, sem samþykkt hefði verið á alþjóðavettvangi. Fjölmargar ályktanir hefðu verið samþykktar gegn gyðingaofsóknum nasista og harðstjórn þeirra. Einkennilegt væri, hve umburðarlyndi væri miklu meira gagnvart voðaverkum kommúnista en nasista. Bannað væri að hafa nasistamerki í frammi í mörgum löndum en tákn kommúnista væru seld sem minjagripir.

Að lokinni ræðu þingmannsins flutti Jón Baldvin Hannibalsson umsögn um hana og Svartbókina og síðan var orðið gefið laust. Undir lok fundar svaraði Lindblad og sleit ég fundi klukkan 13.00 með þeim orðum, að síðar yrði efnt til fleiri funda vegna útgáfu bókarinnar og tímamóta, sem snerta kommúnismann. Í ár eru 70 ár liðin frá griðasáttmála Hitlers og Stalíns, sem gat síðari heimsstyrjöldina af sér. Þá eru 20 ár liðin frá því að íbúar Eystrasaltslandanna mótmæltu sovésku ofríki með því að taka höndum saman í orðsins fyllstu merkingu og mynda 600 km langa keðju. Loks eru 20 ár liðin frá hruni Berlínarmúrsins.