29.4.2006 18:16

Laugardagur, 29. 04. 06.

Bókasafnið í Les Murs er eitt hið stærsta, sem ég hef séð í einkaeign og kennir þar margra grasa, þannig að mér leiddist ekki á meðan kvartettinn var að æfa sig. Hitinn var ekki mikill miðað við árstíma milli 10 og 15 gráður en gott var að sitja í sólinni innan múra sveitasetursins, sem má rekja allt aftur til 100 ára stríðsins eða sex til sjö hundruð ár aftur í tímann. Þar er myndarlegur dúfnaturn en stærð slíkra turna gefur til kynna landareign þess, sem setrið átti, því að dúfurnar voru notaðar til að afla frétta og flytja fyrirmæli landeigandans til leiguliðanna.

Auk þess að kynna mér bókasafnið reyndi ég að átta mig á Clearstream-málinu, sem nú ber hæst í frönskum stjórnmálum.