17.4.2006 17:50

Mánudagur, 17. 04. 06.

Íslendingum má í léttu rúmi liggja, þótt Donald Rumsfeld verði látinn fjúka sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Við höfum líklega ekki átt þar neinn hauk í horni. Rumsfeld sætir vaxandi gagnrýni málsmetandi hershöfðingja fyrir þvermóðsku og hroka, auk þess sem  þeir telja hann hafa sýnt litla fyrirhyggju vegna eftirleiks innrásarinnar í Írak. Henry Kissinger lýsir  Rumsfeld í endurminningum sínum sem snillingi í því að halda sínu í stöðugri valdabaráttu innan bandaríska stjórnkerfisins. Nú reynir enn einu sinni á þennan hæfileika hans.

Rumsfeld kýs að tala niður til hershöfðingjanna, sem gagnrýna hann og lætur eins og þeir séu bitrir eftirlaunamenn að draga að sér athygli. Þegar Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði nýlega á blaðamannafundi í Bretlandi, að ýmislegt hefði vissulega farið úrskeiðis í Írak eftir innrásina, svaraði Rumsfeld henni frekar kaldhæðnislega.

Rumsfeld hefur fylgt þeirri stefnu bæði vegna hernaðarins í Afganistan og Írak, að hernaðaðgerðin eigi að ráða því, hverjir séu kallaðir til þátttöku í henni, en þátttakendurnir eigi ekki að ráða því, hvort gripið sé til aðgerðarinnar. Einstefna af þessu tagi er ekki til þess fallin að laða fram samstarfsvilja annarra.

George W. Bush forseti sá ástæðu til þess í páskaleyfi sínu í Camp David að ræða við blaðamenn til að lýsa fullum stuðningi við Rumsfeld vegna gagnrýni hershöfðingjanna. Bandaríkjaforseti leggur ekki slíka lykkju á leið sína, nema hann telji mikið í húfi.