14.4.2006 16:49

Föstudagur, 14. 04. 06.

Fórum í gönguferð um nokkra garða í Dublin áður en við tókum Dart-lest út til Howth, sem er höfði norður af borginni - orðið Howth gæti raunar verið umskrift á orðinu höfði en við hann eru tvær eyjar: Lambeye og Ireland's eye - en augljóst er, að nöfnin eru norræn frá tímum víkinganna: Lambey og Írlandsey.

Veitingastaðir eru margir lokaðir í dag en þeir, sem eru opnir mega ekki selja áfengi - til að minnast krossfestingarinnar. Nokkrar verslanir eru opnar en flestar virðast lokaðar - að minnsta kosti utan ferðamannastaða.

Við vorum í Christ Church dómkirkjunni klukkan 15.30 en þá hófst það, sem á ensku er nefnt: 15.30 Choral Evensong and Proclamation of the Cross. Kórinn söng og prestar lásu úr ritningunni og fóru með bænir auk þess að bera kross inn kirkjugólfið að altarinu, þar sem þeir lögðu hann. Var stundinn hátíðleg og söngurinn frábær en sagt er að kórinn eigi rætur aftur til ársins 1493.

Víða má sjá merki um sýningar og viðburði, sem tengjast 100 ára afmæli Samuels Becketts. Við urðum að láta okkur nægja að sjá myndir af honum í gegnum glugga á ljósmyndasafninu, því að það er lokað yfir hátíðarnar.