10.4.2006 21:24

Mánudagur, 10. 04. 06.

Las í Fréttblaðinu að fundir Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sl. laugardag hefðu leitt í ljós, að flokkarnir væru „öndverðum meiði um hvernig varnarmálum þjóðarinnar skuli háttað í framtíðinni. Kom það dyggilega í ljós hjá leiðtogum flokkanna á flokksráðsfundum um helgina.“

Í pistli mínum hér á síðunni í gær benti ég á, að enginn grundvallarmunur hefði komið fram í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins annars vegar og ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, hins vegar, það er að forgangsverkefni væri að láta reyna á varnarsamninginn við Bandaríkin. Í dag lýsti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra síðan sömu skoðun í ræðu í Háskóla Íslands.

Fréttablaðið sækir heimildir fyrir skoðun sinni til Baldurs Þórhallssonar, dósents í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Ef hann telur grundvallarmun á afstöðu Sjálfstæðisflokks og skoðana formanns Samfylkingarinnar, þegar litið er til afstöðunnar til varnarsamningsins við Bandaríkin, átta ég mig ekki á því við hvaða heimildir hans styðst.

Í samtali við Fréttablaðið lýsir Baldur stefnu Samfylkingarinnar á þennan veg: „Sú stefna felur í sér að Ísland taki þátt í varnarstefnu sambandsins og utanríkis- og öryggismálastefnu þess. Felur hún meðal annars í sér sameiginlegar varnarskuldbindingar ef Evrópusambandsríkin verða fyrir hryðjuverkaárás.“

Vegna þessara orða dósentsins er ástæða til að spyrja: Hvar er þessar „sameiginlegu varnarskuldbindingar“ að finna? Hvar eru þær skráðar? Hver á að hrinda þeim í framkvæmd?´

Í leiðara Blaðsins í dag er fjallað um þau ummæli Ingibjargar Sólrúnar í flokksstjórnarræðu hennar, að Íslendingar hlytu „að stefna að því í framtíðinni að eiga öryggissamfélag með Evrópu fremur en Bandaríkjunum.“ Segir Blaðið réttilega af þessu tilefni: „Ekki verður annað greint en að ákveðins misskilnings gæti í þessari yfirlýsingu formanns Samfylkingarinnar..“ Blaðið telur, að það öryggissamfélag sem Ísland tilheyri grundvallist á tengslum Evrópu og Bandaríkjanna og segir síðan: „Ekkert hefur breyst í þeim efnum og mun tæpast gera það um fyrirsjáanlega framtíð.“