5.4.2006 22:05

Miðvikudagur, 05. 04. 06.

Svaraði þremur fyrirspurnum um kl. 18. 30 á alþingi um boðun í neyðartilvikum til heyrnarlausra og almennings og um flutning verkefna Þjóðskrár til sýslumanna í Siglufirði og Ólafsfirði.

Ég var ekki á þingfundi fram undir klukkan 06.00 í morgun, en um nóttina hafði Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri/grænna, talað í rúma sex klukkutíma til að andmæla frumvarpi um að breyta ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins. Ögmundur má ekki heyra minnst á orðið hlutafélag á þingi, án þess að rjúka upp til handa og fóta.

Ég sá þá í Kastljósi í gærkvöldi Ögmund og Sigurð Kára Kristjánsson, þingmann sjálfstæðismanna, og þar vakti Sigurður Kári athygli á því, hvernig Ögmundur sveiflar sér á milli þess að vera þingmaður v/g og formaður BSRB og nýtir sér formennskuna, þegar svo ber undir í flokkspólitískum tilgangi. Sætir undrun æ fleiri þingmanna, að einstök félög eða félagsmenn innan BSRB láti þessar flokkspólitísku æfingar yfir sig ganga. Þegar vatnalögin voru til umræðu á þingi, kom í ljós, að í félagasyrpu, sem átti að standa með BSRB að því að að andmæla frumvarpinu, voru félög, sem mótmæltu því, að nafni þeirra væri veifað á þennan hátt.

Mér skilst, að sem formaður BSRB hafi Ögmundur staðið fyrir ályktun almenns starfsmannafundar RÚV um Ríkisútvarpið hf., sem send var þingmönnum í gær. Þar segir meðal annars: „Við teljum okkur vera í vinnu hjá þjóðinni og landsmenn eigi rétt á því að vita hvert stefni með fjölmiðil þeirra.“ Það hlýtur að vera þeim vonbrigði, sem sömdu þennan yfirlætisfulla texta, að svo virðist sem þjóðin og landsmenn láti sér það auðvitað í léttu rúmi liggja, þótt ríkið ákveði að breyta eign sinni úr stofnun í hlutafélag. Menn þurfa að vera mjög sérstaklega hugmyndafræðilega innréttaðir nú á dögum til að komast í uppnám vegna slíkrar breytingar - sérstaklega þegar markmið hennar er að styrkja stöðu viðkomandi ríkisfyrirtækis í samkeppni við einokun einkaaðila á almennum fjölmiðlavettvangi.

Í þessari ályktun segir einnig: „Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa sýnt mikla þolinmæði á löngu og leiðinlegu breytingaskeiði stofnunarinnar. Það hefur verið von þeirra að betri tímar gætu runnið upp að því loknu. Eitt það versta sem fyrir getur komið er áframhaldandi óvissa næstu árin, af því að lög hafi ekki verið nóg (svo!) vel úr garði gerð. Starfsmenn skora á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina með skiljanlegum lögum sem duga.“

Mín reynsla af samskiptum við forystumenn starfsmanna RÚV á þeim tíma, sem ég leitaðist við að færa rekstrarform RÚV inn í nútímann, var ekki, að þeir sýndu mikla þolinmæði. Mér þótti frekar, að þeir vildu engu breyta, allt mundi bjargast með því að hækka afnotagjöldin og útiloka kjörna fulltrúa, útvarpsráð, frá því að sinna lögbundnum skyldum sínum.