4.4.2006 21:10

Þriðjudagur, 04. 04. 06.

Umræður í borgarstjórn Reykjavíkur voru stuttar og skrýtnar í dag - fundurinn stóð innan við tvo tíma. Fyrst var rædd tillaga okkar sjálfstæðismanna um árlega barnahátíð í Reykjavík og gerði borgarstjóri tilraun til að vísa henni á fölskum forsendum til umsagnar í einhverju ráði borgarstjórnar. Þá var rætt um málefni Háaleitishverfis. Síðan átti að ósk R-listans ræða um Sundabraut en Alfreð Þorsteinsson, forseti borgarstjórnar, gerði sér lítið fyrir og tók málið af dagskrá. Hann sagði aðspurður, að þetta hefði hann gert, því að sig skorti gögn í málinu! Sundabraut hefur verið til umræðu um langt árabil - Alfreð Þorsteinsson skortir hins vegar gögn til að ræða hana!

Þá andmæltu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þeirri ákvörðun að flytja bensínstöð ESSO úr Geirsgötu í hornið á milli Njarðargötu og Sóleyjargötu, norðan Hringbrautar. Töldu þeir, að með þessu væri enn verið að stunda bútasaum í Vatnsmýrinni og með hliðsjón af nýjum viðhorfum vegna þess hvernig til hefði tekist með Hringbrautina ætti að leita samkomulags um annan stað fyrir þessa bensínstöð. Borgarstjóri taldi þetta nú í góðu lagi allt saman, enda væru sjálfstæðismenn svo vitlausir að halda, að þetta horn væri í Vatnsmýrinni - það kæmi henni bara ekkert við. Gísli Marteinn Baldursson benti þá á, að væri þetta ekki í Vatnsmýrinni þá væri hornið einfaldlega í Hljómskálagarðinum og ekki væri betra að breyta honum í athafnasvæði bensínstöðvar. Borgarstjóri brást illa við og sagði sjálfstæðismenn greinilega vilja hafa bensínstöð í anddyri tónlistarhússins, úr því að ekki mætti flytja hana á þennan stað!

Í yfirlýsingu Jóns Ásgeir Jóhannessonar, forstjóra Baugs, í Morgunblaðinu í morgun í tilefni af ákæru, sem honum var birt 3. apríl 2006 segir meðal annars:

„Orð dómsmálaráðherra um að dómstólar skyldu hafa síðasta orðið í málinu hafa nú fengið merkingu í reynd enda ljóst að hinn sérstaki saksóknari hefur fengið skýr skilaboð til framkvæmda.“

Séu ummæli forstjóra Baugs um aðra þætti hins svonefnda Baugsmáls og nýja ákæru vegna þess byggð á sambærilegri virðingu fyrir staðreyndum og lýsir sér í útleggingu hans á orðum mínum hér á síðunni frá 10. október 2005, er rík ástæða til að lesa orð forstjórans með þeirri varúð að skoða frumheimildir til að glöggva sig á gildi þeirra.

Settur ríkissaksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, fyrrverandi héraðsdómari og formaður dómstólaráðs, er fullkomlega sjálfstæður í starfi sínu og tekur ákvarðanir sínar á grundvelli lögheimilda án minna afskipta.