22.4.2006 22:27

Laugardagur, 22. 04. 06.

The Economist birtir nú um helgina sérstaka úttekt á því, sem blaðið kallar nýja miðla. Þar er sagt frá upphafi bloggsins og enska orðið blog rakið til ársins 1997, þegar Jorn Barger kallaði vefsíðuna sína „weblog“. Árið 1999 fór annar vefsíðumaður í orðaleik og braut orðið í tvennt með því að segja „we blog“ - síðan varð til nýtt fagorð - blog - sem bæði er sögn og nafnorð á ensku. Á íslensku segjum við blogg og að blogga.

Fagorðið vísar til vefsíðu, þar sem eigandinn færir reglulega inn nýtt efni, oft stutt, en ekki endilega, og með vísunum í annað blogg eða vefsíður.

Við skilgreiningu á bloggi er einnig vísað til efnistaka. The Economist nefnir Dave Winer, hugbúnðarfræðing, til sögunnar, þar sem hann telji sig allra manna lengst hafa haldið úti samfelldu bloggi eða frá árinu 1997. Hann lýsir bloggi á þann veg, að það sé „óritstýrð rödd eins manns“- helst leikmanns. Blogg einkennist með öðrum orðum almennt af hráum upprunaleika og sérkennum höfundarins. Með þessu er því hafnað, að síður frá fyrirtækjum, almannatengslafólki og dagblöðum falli undir blogg. Winer segir, að komi ritstjóri að því að ákveða efni á síðunni sé ekki lengur um blogg að ræða.

Þegar ég las þessa lýsingu, sá ég, að ég hef haldið blogg-síðu samfellt úti lengur en Dave þessi Winer, því að eins og lesendur bjorn.is geta staðfest með því að fara inn á pistlana mína, var hinn fyrsti þeirra settur á síðuna 19. febrúar 1995. 

Ég fann Dave Winer á netinu og síðuna, sem hann hefur haldið úti síðan í apríl 1997 undir veffanginu http://www.scripting.com . Lesendur geta því kynnt sér hana sjálfir.