2.4.2006 21:29

Sunnudagur, 02. 04. 06.

Hver verða átakamálin í komandi borgarstjórnarkosningum? Svarið við þessari spurningu verður ljósari á komandi vikum kosningabaráttunnar. R-listann og flokka hans er hins vegar unnt að dæma af verkunum í þágu borgarbúa. Í Morgunblaðinu í dag mátti lesa tvo dóma, annars vegar um þróunina í félagslegri þjónustu og hins vegar um ákvarðanir í skipulagsmálum. Feitaletrið er frá mér komið.

Jóhann Björnsson í 8. sæti á lista vinstri/grænna í Reykjavík skrifar:

Ráðaleysið í meðferðarúrræðum [hjá Reykjavíkurborg] og þá ekki síst meðferðarúrræðum barna og unglinga er sá vandi sem brýnast er að takast á við. Af störfum mínum á meðal grunnskólanema undanfarin ár hef ég því miður of oft fengið að kynnast dapurlegum örlögum þeirra sem leiðst hafa út á þá vafasömu braut sem fylgir neyslu vímuefna. Oftar en ekki hafa þessir einstaklingar þurft að bíða vikum og jafnvel mánuðum saman til þess að fá viðunandi meðferðarúrræði. Á meðan á þessari bið stendur, sem sjaldnast er vitað fyrirfram hversu löng er, eru heimilin í uppnámi, skólaganga í molum og þessir ungu einstaklingar sökkva æ dýpra ofan í fen ógæfunnar.“

Magnús Skúlason arkitekt skrifar:

„ Því er þetta sett hér á blað vegna þess að nýlega höfum við horft upp á ein verstu mistök í skipulagsmálum sem gerð hafa verið í Reykjavík, og er þó af nógu að taka, en það er færsla Hringbrautar. Þvílík sóun á landrými hefur vart sézt í þéttbýli. Hvar er draumurinn um stækkun miðborgar í suðurátt út í Vatnsmýri? Hvernig eiga endurnar að komast yfir með ungana? Hvaða umferðarvandamál voru leyst? Sjálf framkvæmdin með tilliti til umferðartækni virðist meira að segja meingölluð með alltof mörgum umferðarljósum í stað ljóslausra afreina.“