12.4.2006 21:35

Miðvikudagur, 12. 04. 06.

Klukkan 11.30 ritaði ég undir samstarfssamning dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við Ólafs Daðasonar, forstjóra Hugvits um þróun á GoPro málaskrárkerfi fyrir stofnanir ráðuneytisins en hér er um einstakt verkefni að ræða og með lausn þess er unnið brautryðjendastarf á heimsvísu.

Klukkan 14.30 voru mér afhentir listar með nöfnum þeirra, sem vilja að sr. Sigfús B. Ingvason verði sóknarprestur í Keflavík en valnefnd og biskup hafa mælt með sr. Skúla S. Ólafssyni.

Í gær var tilkynnt, að Geir H. Haarde, settur dómsmálaráðherra, hefði skipað Hjördísi Björk Hákonardóttur dómstjóra hæstaréttardómara. Ég sagði mig frá þessari skipan, þar sem ég hafði samið við Hjördísi að tilmælum kærunefndar jafnréttismála, sem taldi hana órétti beitta, þegar ég skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson hæstaréttardómara. Þetta er í annað sinn sem Geir skipar hæstaréttardómara vegna vanhæfis míns, en þegar Jón Steinar Gunnlaugsson var skipaður, sagði ég mig frá þeirri skipan vegna óleystrar deilu minnar og Hjördísar, sem þá sagðist vera að undirbúa mál á hendur ríkinu. Það hefði hún varla áformað, ef álit kærunefndar jafnréttismála hefði verið endanlega niðurstaða um það, hvort ég braut jafnréttislög eða ekki. NFS,  fréttasjónvarpsstöðin innan Baugsmiðlaveldisins hefur hins vegar hvað eftir annað fullyrt í fréttum, að ég hafi brotið jafnréttislög á Hjördísi og borið fyrir sig álit kærunefndarinnar. Í nóvember 2005 sömdum við Hjördís um, að hún færi í námsleyfi í eitt ár en eftir skipun hennar í hæstarétt lýkur því hinn 1. maí næstkomandi. Ég hef undrast vangaveltur í fjölmiðlum um þetta námsleyfi og kostnað við það, þar sem alltaf er verið að veita ríkisstarfsmönnum námsleyfi og  ákvæði um slíkt leyfi er hluti af kjarasamningi margra þeirra. Ég man ekki eftir, að fjölmiðlar séu almennt að tíunda kostnað við slík leyfi, til dæmis hjá þeim, sem starfa við Háskóla Íslands.