11.4.2006 9:36

Þriðjudagur, 11. 04. 06.

Fór í þinghúsið uppúr miðnætti og um klukkan 01.30 flutti ég framsöguræðu um frv. um landhelgisgæsluna, síðan um fullnustu norrænna refsidóma, það er flutning innheimtu vegna þeirra á Blönduós, og loks fyrir frv. um afnám einkaréttar happdrættis Háskóla Íslands sem flokkahappdrættis til að greiða út vinninga í peningum, það er að flokkahappdrættin DAS og SÍBS fengju einngi heimild til að greiða vinninga í peningum. Lauk umræðum um málin um kl. 03.00.

Ríkisstjórn kom saman klukkan 09.30.

Klukkan 16.00 var ég í útlendingastofnun og flutti þar ávarp vegna nýrrar heimasíðu, sem verið var að opna.

Var kominn á alþingi rúmlega 16.30 og rétt fyrir 17.00 hófust umræður um fjögur mál, sem ég flutti: framsal sakamanna; starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga innan EES; dómstóla og meðferð einkamála, og breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.

Umræður urðu mestar um síðasta málið og lauk þeim ekki fyrr en rúmlega 19.30. Þar með hef ég flutt framsögu fyrir öllum málum, sem ég hef hug á að koma til allsherjarnefndar á þessu þingi. Næstu vikur kemur í ljós, hvernig nefndarmönnum, undir formennsku Bjarna Benediktssonar, gengur að afgreiða málin. Bjarni er farsæll nefndarformaður og laginn við að ná samkomulagi innan nefndarinnar. Málafjöldi í nefndinni er mikill en hún tekur til meðferðar mál frá forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra.

Í upphafi þingfundar í dag, kvaddi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sér hljóðs í tilefni aðf forystugrein Morgunblaðsins laugardaginn 8. apríl en þar sagði:

„Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, sagði í umræðum á Alþingi í fyrradag, að ríkisstjórnarflokkarnir væru stefnulausir í varnar- og öryggismálum og sagði að Ísland mundi í framtíðinni tengjast Evrópu enn meir og bætti við: „Þar verður okkar öryggissamfélag, þegar til framtíðar er litið.“ Er það svo?

Hverjir eru hinir raunhæfu kostir, sem við okkur blasa í þeirri stöðu, sem nú er komin upp í öryggismálum okkar eftir ákvörðun Bandaríkjamanna?

Í fyrsta lagi er hugsanlegt að við gætum samið við þá um reglulegt eftirlitsflug í námunda við Ísland frá stöðvum þeirra í Bretlandi, þar sem þeir hafa enn mikinn flugvélakost.

Í öðru lagi gætum við hugsanlega samið um reglulegt eftirlitsflug á vegum Atlantshafsbandalagsins með svipuðum hætti og Eystrasaltsríkin hafa gert og vissulega koma ýmis Evrópuríki þar við sögu.

Í þriðja lagi gætum við samið um sambærilegt eftirlitsflug af hálfu Atlantshafsbandalagsins og bandalagið hefur með höndum yfir Slóveníu, sem er með dálítið öðrum hætti en yfir Eystrasaltsríkjunum.

Hér er ýmist um að ræða kosti, sem snúa að Bandaríkjunum beint eða óbeint, þegar um atbeina Atlantshafsbandalagsins er að ræða.

Í samningaviðræðunum við Bandaríkjamenn á dögunum komu svo fram nýjar og forvitnilegar hugmyndir, sem lítil skynsemi væri í að vísa frá á þessu stigi.

Það er ljóst að Norðurlöndin hafa ekki bolmagn til að taka að sér varnir Íslands. Raunar fer ekki á milli mála, að ekkert Evrópuríkjanna hefur bolmagn til þess.

Morgunblaðið hefur hvatt til þess, að við eflum pólitísk samskipti okkar við Þýzkaland mjög en í því felst ekki að blaðinu komi til hugar að Þjóðverjar geti tekið að sér varnir Íslands.

Yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar á Alþingi í fyrradag er innantóm orð. Hún hefur ekkert innihald. Ef einhver stjórnmálaflokkur er stefnulaus í varnar- og öryggismálum Íslendinga er það Samfylkingin.“

Eins og allir sjá, er þessi leiðari napurleg árás á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og stefnuleysi Samfylkingarinnar í varnar- og öryggismálum. Með upphlaupi sínu í upphafi þingfundar í dag vildi Ingibjörg fyrst og fremst draga athyglina frá þessu og úrræði hennar var þetta samkvæmt frásögn á mbl.is:

„Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vildi vita á Alþingi í dag hvort Morgunblaðið hefði fengið upplýsingar um nýlegan fund embættismanna um varnarmál, sem Alþingi og utanríkismálanefnd þingsins hefðu ekki fengið.

Ingibjörg Sólrún vísaði til þess að í leiðara Morgunblaðsins sl. laugardag segði, að á fundinum hefðu komið fram nýjar og forvitnilegar hugmyndir, sem lítil skynsemi væri í að vísa frá á þessu stigi. Sagði Ingibjörg Sólrún það vera tíðindi, að Morgunblaðið telji sig hafa upplýsingar um nýjar og forvitnilegar hugmyndir sem utanríkismálanefnd hefur ekki fengið upplýsingar um. Spurði Ingibjörg Sólrún hvort Morgunblaðið væri að fara með fleipur eða hvort blaðið hefði upplýsingar sem aðrir hefðu ekki.“

Mörður Árnason hjálpaði formanni sínum Ingibjörgu Sólrúnu með þessum hætti samkvæmt mbl.is:

„Mörður Árnason, Samfylkingu, sagði að allir sem hefðu vit á pólitík túlkuðu leiðara Morgunblaðsins þannig, að utanríkisráðherra hafi gengið á fund ritstjóra Morgunblaðsins og kynnt honum þessar fersku hugmyndir, sem komið hefði fram á fundi embættismannanna. Spurði Mörður hvort utanríkisráðherra ætlaði að kynna þinginu þessar hugmyndir og hvort hann hefði sagt forsætisráðherra frá þessum hugmyndum.“

Þetta upphlaupi Ingibjargar Sólrúnar og fylgisveina hennar á þingi út af þessum leiðara staðfestir enn viðleitni þessa fólks til að ræða öryggis- og varnarmál þjóðarinnar á þeim nótum, að þar skuli gera allt í mannlegu valdi til að forðast kjarna málsins eða það, sem sannara reynist.