6.4.2006 21:11

Fimmtudagur, 06. 04. 06.

Rætt var um utanríkismál á þingi í dag og snerust umræður að mestu um varnarmálin eins og við var að búast, enda gaf ræða Geirs H. Haarde utanríkisráðherra tilefni til þess. Ef marka má fréttir af umræðum eftir ræðu Geirs, kom ekkert fréttnæmt fram í þeim.

Á forsíðu Fréttablaðsins er mynd frá því, þegar Carol Van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna, afhenti Baldri Þórhallssyni, dósent við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og formanni stjórnar Alþjóðamálastofnunar háskólans, til varðveislu í Landsbókasafni Íslands-Háskólabóksafni bókagjöf á sviði alþjóða-, varnar- og oryggismála. Þær Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, og Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður eru með sendiherranum og Baldri á myndinni og í texta segir: „Baldur sagði kankvís að bækurnar væru vel fjögurra þotna virði.“ Annars staðar var sagt, að Bandaríkjastjórn hefði gefið 200 bækur að þessu sinni og ætlaði að bæta við gjöfina árlega.

Það var haft á orði við mig í sundinu í morgun, að nú mætti ég hafa mig allan við að lesa og þegar ég kváði, var vísað til þessarar gjafar Bandaríkjastjórnar. Síðan heyrði ég lagt út af bókagjöfinni í Víðsjá á rás 1. Þessi bandaríska gjöf hefur þannig vakið meiri athygli en venja er, þegar sendiráð gefa bækur til landsbókasafnsins og er það vegna efnisvalsins.

Ég er fáfróður um bókakost Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, enda kaupi ég að jafnaði bækur, sem vekja áhuga minn, og er áskrifandi að tímaritum, sem til mín höfða. Sé raunin sú, að í safninu eða í fórum alþjóðamálastofnunar hafi ekki verið til bækur um herfræðileg efni eða öryggismál, er Bandaríkjastjórn að bæta úr brýnni þörf - hvað sem líður öllum orrustuþotum.