1.4.2006 19:35

Laugardagur, 01. 04. 06.

Mér þótti skrýtið að heyra haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingar, Steingrími J. Sigfússyni, formanni vinstri/grænna, og Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni frjálslyndra, að þau hörmuðu, að ríkisstjórnin hefði ekki lagt fram tillögur um ráðstafanir til að tryggja hervarnir landsins í viðræðum við Bandaríkjamenn föstudaginn 31. mars. Ég varð undrandi, vegna þess að í stjórnmálaumræðum hafa þessir þrír forystumenn aldrei verið til þess búin að ræða hervarnir landsins. Raunar veit ég ekki betur en Steingrímur J. tali í formælingartón og geri lítið úr því, þegar hreyft er hugmyndum um, að hér þurfi að vera hervarnir - það er framlag hans til þessara mála. Ingibjörg Sólrún er gamall herstöðvaandstæðingur, sem talaði á þann veg í kosningabaráttunni 2003, að áheyrendur hennar voru þeirrar skoðunar, að hún teldi varnarsamninginn ekki í gildi! Mér hefur aldrei  þótt hún tala um varnarmál eins og hún hafi kynnt sér þau að nokkru gagni - eins og sannaðist til dæmis þegar hún sagði, að hyrfi bandaríska varnarliðið væri auðvelt að leysa vandann vegna þess í faðmi Evrópusambandsins (ESB).

Þá var í fréttum hljóðvarps ríkisins rætt um væntanlega olíu- og gasflutninga frá Barentshafi til Norður-Ameríku eins og íslensk stjórnvöld hefðu ekki velt því fyrir sér, að þessar siglingar kölluðu á viðbúnað hér á landi. Nýtt varðskip og ný eftirlitsflugvél fyrir landhelgisgæsluna taka einmitt mið af þessum breytingum, eins og rætt hefur verið við undirbúning smíði og kaupa á þessum nýju tækjum.

Tal stjórnarandstöðu um, að í ríkisstjórn séu ekki hugmyndir um það, hvernig tryggja skuli öryggi lands og þjóðar er jafnfráleitt og fréttir um, að ekkert hafi verið hugað að því á vegum íslenskra stjórnvalda, hvernig brugðist skuli við vegna stórflutninga á olíu og gasi yfir Atlantshaf. Frásagnir og fréttir af þessu tagi segja meira um vanþekkingu þeirra, sem flytja þær, en það, sem er að gerast á vegum stjórnvalda í þessum málum.

Össur Skarphéðinsson kemst að þeirri niðurstöðu á vefsíðu sinni, að veika stöðu Framsóknarflokksins í könnunum um fylgi í borgarstjórnarkosningunum megi rekja til samstarfs framsóknarmanna við sjálfstæðismenn í ríkisstjórn! Hvers vegna nefnir Össur ekki augljósustu skýringuna, þegar rætt er um borgarmál, það er að framsóknarmenn hafa verið í 12 ár í R-listasamstarfi í Reykjavík? Össur upplýsir lesendur síðu sinnar ekki um, hvort hann er sammála Degi B. Eggertssyni, fambjóðanda Samfylkingar til borgarstjóra, um tvíbreiða Sundabraut - þetta er þó hið eina eftirtektarverða, sem frambjóðandinn hefur lagt af mörkum til kosningaráttunnar til þessa - gerði Dagur það í samráði við Össur?