3.4.2006 22:19

Mánudagur, 03. 04. 06.

Frá því var skýrt í dag, að Eiríkur Hjálmarsson, aðstoðarmaður borgarstjóra, yrði upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur eftir borgarstjórnarkosningar í vor. Áður hafði Hjörleifur Kvaran borgarlögmaður ráðist til starfa sem lögmaður orkuveitunnar. Má því segja, að tveir lykilstarfsmenn Reykjavíkurborgar hafi flutt sig úr ráðhúsinu í höfuðstöðvar orkuveitunnar á tiltölulega skömmum tíma.

Í ráðhúsinu velta menn því fyrir sér, hvort Helga Jónsdóttir, yfirmaður stjórnsýslu borgarinnar, muni halda sömu leið, en heldur er það talið ólíklegt, að minnsta kosti á meðan Alfreð Þorsteinsson heldur um stjórnartauma orkuveitunnar, því að litlir kærleikar séu á milli hans og Helgu. Þeirri spurningu hefur raunar einnig verið varpað fram, hvort embættismenn séu að leita starfa utan ráðhússins vegna valda Helgu innan þess.

ps. Að kvöldi mánudags hafði ég sett á vefsíðuna, að Anna Skúladóttir hefði látið af störfum sem fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og tekið að sér fjármálastjórastarf hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Ég þurrkaði færsluna hins vegar út, þegar ég fann hvorki tilkynningu um vistaskiptin á vefsíðu Reykjavíkurborgar né orkuveitunnar auk þess sem Anna er enn kölluð fjármálastjóri á starfsmannaskrá á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Eftir að ég kynnti mér málið í ráðhúsinu, fékk ég staðfestingu á þessum vistaskiptum Önnu og að Birgir Finnbogason væri nú fjármálastjóri Reykjavíkurborgar.

Það eru því þrír lykilstarfsmenn í ráðhúsinu, sem hafa ákveðið að hverfa þannig í glæsibyggingu orkuveitunnar.