19.4.2006 21:32

Miðvikudagur, 19. 04. 06.

Hitti blaðamann frá Aftenposten í Noregi, sem er hér að safna efni í mikla grein um öryggis- og varnarmál.

Var síðdegis í heimsókn með starfsmönnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hjá tölvumiðstöð ráðuneytisins, TMD, í Skógarhlíð.

Ef ég heyrði rétt er það tillaga frambjóðenda Samfylkingarinnar í Reykjavík undir forystu Dags B. Eggertssonar að stofna félag með ríkinu um framtíð Vatnsmýrarinnar.

Þegar ég lét þá skoðun í ljós í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum, að nauðsynlegt væri að fulltrúar ríkis og borgar settust niður og kæmu sér saman um framtíð Vatnsmýrarinnar, ætlaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núverandi formaður Samfylkingarinnar, varla að geta hamið sig af undrun og hneykslan, hvernig nokkrum manni dytti þetta í hug. - Reykvíkingar hefðu jú ákveðið framtíð Vatnsmýrarinnar í atkvæðagreiðslu nú ætti bara að setjast niður með ríkinu - ha! ha! ha!

Skyldi Ingibjörg Sólrún samþykk því, að stofnað verði félag með ríkinu um framtíð Vatnsmýrarinnar? Fjölmiðlamenn hljóta að spyrja hana. Einnig ættu þeir að spyrja hana um ákvörðun Gísla S. Einarssonar, varaþingmanns Samfylkingarinnar, um að verða bæjarstjóraefni sjálfstæðismanna á Akranesi.

Þá staldraði ég við þann þátt í stefnu samfylkingarfólks í Reykjavík, sem snýst um sjálfstæða skóla en þar segir, að Samfylkingin vilji draga enn frekar úr miðstýringu í menntakerfinu og auka sjálfstæði einstakra skóla til að móta eigin aðferðir og áherslur. Aukinn sveigjanleiki í skólastarfi sé lykilatriði. Hvers vegna skyldi Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs, ekki hafa tekið undir sjónarmið okkar sjálfstæðismanna um minni míðstýringu og sjálfstæða skóla á kjörtímabilinu, sem nú er að líða? Hvers vegna snýr Samfylkingin við blaðinu í skólamálum nú mánuði fyrir kosningar?