21.4.2006 21:47

Föstudagur, 21. 04. 06.

Um kvöldmatarleytið voru atkvæðagreiðslur í þinginu til að koma frumvarpi félagsmálaráðherra um frjálsa för verkafólks til nefndar. Afgreiðsla málsins þarf að vera hröð, þar sem hinar nýju reglur eiga að taka gildi 1. maí. Áður en gengið var til atkvæðagreiðslunnar lauk annari umræðu um frv. til laga um RÚV.

Í blöðum birtast nú auglýsingar frá 365-miðlum (Baugsmiðlunum) gegn RÚV-frumvarpinu og eru þar birtir neikvæðir kaflar úr umsögnum Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið. Óvenjulegt er, að gripið sé til þessara ráða í því skyni að hafa áhrif á þingmenn við afgreiðslu mála, svo að ekki sé nú minnst á, hve þetta er sérstakt, þegar auglýsandinn ræður yfir allt að 70% fjölmiðla í landinu og hefur lagt undir sig allt sviðið eins og ég benti á í pistli mínum á dögunum.

Sumir stóreignamenn eira engum keppinauti sínum neins og leggja ofurþunga á hagsmunagæslu sína, ef þeir telja minnstu líkur á, að staða keppinautarins styrkist, þótt markaðshlutdeild hans sé ekki mikil.

Félagar mínir í þinginu, sem hafa fylgst með umræðunum um RÚV, eru undrandi á því, hve langt vinstrisinnar ganga til að hefta framgang þessa frumvarps um RÚV og velta fyrir sér, hvernig á því standi, að þeir vilji ekki, að RÚV fái tækifæri til að ná áttum við gjörbreyttar markaðsaðstæður.

Ég hef áður hér á síðunni vakið máls á því, að ekki sé það neinum málstað sérstaklega til framdráttar, að Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, taki hann upp á sína arma, en í þessu máli mun Björgvin einmitt hafa gengið lengst í að enduróma 365 boðskapinn.