1.7.1998 0:00

Miðvikudagur 1.7.1998

Þetta er þjóðhátíðardagur Kanada. Var grenjandi rigning þegar við litum út í morguninn og viðraði því ekki vel til útihátíða. Klukkan 10 hitti ég Sheilu Copps á einkafundi, þar sem við ræddum meðal annars landafundaárið 2000 og kynningu á Íslendingasögunum, nú þegar þær eru allar komnar út á ensku. Klukkan 12.30 hófst hátíð fyrir framan þinghúsið í Ottawa. Var okkur boðið til hennar og sátum við undir regnhlífum og þurfti að hvolfa vatninu úr stólunum áður en við settumst í þá. Sheila Copps flutti ræðu og einnig forsætisráðherrann og landstjórinn, kór söng og listamenn frá einstökum fylkjum Kanada komu fram. Það stytti upp undir athöfninni og eftir hana skoðuðum við þinghúsið og þágum hádegisverð þar. Síðan gengum við til hótelsins og minnti stemmninginn á 17. júní hjá okkur, foreldrar með börn sín, fánar, blöðrur, pylsur og ís, fjölistafólk og hljómsveitir. Síðan var haldið út á flugvöll og flogið heim í gegnum Boston. lentum við á Keflavíkurflugvelli um klukkan 6 að morgni fimmtudagsins 2. júlí.