15.4.2007 15:34

Sunnudagur, 15. 04. 07.

Landsfundi sjálfstæðismanna lauk síðdegis. Kosið var til miðstjórnar fyrir hádegi og voru 11 fulltrúar kjörnir. Átta konur náðu kjöri og þrír karlar en 25 gáfu kost á sér. 1.012 landsfundarfulltrúar greiddu atkvæði. Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, hlaut flest atkvæði 709 eða 70,4%

Geir H. Haarde var endurkjörinn formaður flokksins með 95,8% atkvæða og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var endurkjörin varaformaður með 91,3% atkvæða. Þetta er glæsileg niðurstaða og sýnir mikla samstöðu og eindrægni innan flokksins. Þeir, sem sátu fundinn og hafa fært mér fréttir af honum, segja að mikill og góður hugur hafi verið í fundarmönnum.

Ég var fjarri góðu gamni vegna legu minnar hér á LSH, þar sem bati minn eykst dag frá degi. Varð ég að láta mér nægja að senda fundarmönnum þessa kveðju.

Landsfundurinn styrkir og eflir flokkinn inn á við og út á við.