13.4.2007 19:25

Föstudagur, 13. 04. 07.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti þá stefnu í setningarræðu 37. landsfundi flokksins, að fólk eldra en 70 ára gæti unnið launaða vinnu án þess að það skerti lífeyri frá Tryggingastofnun. Í kvöldfréttum sjónvarps í dag var rætt um málið við Margréti Margeirsdóttur, forystukonu eldri borgara, og sá hún ástæðu til að láta þess getið, að stefnan væri kynnt á elleftu stundu fyrir kosningar, en málið hefði lengi verið á stefnuskrá eldri borgara. Var helst að skilja, að Margréti þætti þessi tímasetning einkennileg. Hvar á að kynna stefnumál Sjálfstæðisflokksins annars staðar en á landsfundi hans? Hvenær á að kynna kosningamál, ef ekki rétt fyrir kosningar?

Nú er 20 ára afmælis flugstöðvar Leifs Eiríkssonar minnst með því að tvöfalda stærð hennar. Skyldi þessi stækkun verða túlkuð sem mál á elleftu stundu fyrir kosningar? Fyrir 20 árum áttu þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Baldvin Hannibalsson varla nægilega sterk orð til að lýsa hneykslan sinni á því, að flugstöðin væri opnuð rétt fyrir kosningar, auk þess væri hún alltof stór og yrði aldrei annað en baggi á ríkissjóði og skattgreiðendum.

Vinstri græn töldu sér misboðið, þegar fréttist, að Alcan kostaði kryddsíldina á Stöð 2 á gamlársdag. Þeim þótti hins vegar sjálfsagt að sækja sjálf um 300 þúsund króna styrk til Alcans.