21.4.2007 19:06

Laugardagur, 21. 04. 07.

Merkilegur liðsmaður bættist í hóp netverja í dag, þegar Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, opnaði vefsíðu sína: matthias.is Í Lesbók Morgunblaðsins birtist tveggja opna grein eftir Matthías af þessu tilefni en hana er einnig að finna á vefsíðunni. Þá hefur Matthías sett dagbókarbrot inn á síðuna og sá ég þar meðal annars færslu frá því í janúar 2001, þegar hann segir frá kvöldverði hjá okkur Rut með Þórunni og Vladimir Ashkenazy og fleiri góðum gestum.

Efstu menn á listum í kjördæmi mínu, Reykjavík suður, hittust í sjónvarpssal í dag og ræddu málin vegna kosninganna. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir endurtók hið sama og hún sagði á morgunvakt rásar 1 á föstudag, að Geir H. Haarde hefði sem fjármálaráðherra komið í veg fyrir, að samkomulag, sem hún og Jón Kristjánsson, þáv. heilbrigðis- og tryggingarráðherra, rituðu undir rétt fyrir borgarstjórnarkosningar 2002 um byggingu hjúkrunarrýma. Geir brást hárrétt við þessum sérikennilega gjörningi, þegar hann sagði hann innistæðulausan af hálfu ríkisins, enda hefði Jón Kristjánsson ekki samþykkt ríkisstjórnar fyrir honum. Í þættinum í dag sagði hann, að þetta hefði verið kosningaryfirlýsing en ekki samningur í nafni ríkisins.

Hinn ómerkilegi strengur í stjórnmálabaráttu Ingibjargar Sólrúnar, sem birtist nú í því að reyna að klína þessu vandræðamáll hennar og Jóns Kristjánssonar á Geir H. Haarde, á ríkan þátt í vandræðum Samfylkingarinnar um þessar mundir og deilunum innan flokksins.

Í sjónvarpsumræðunum reyndi hún að afsaka undirskrift sína og Jóns rétt fyrir kjördag 2002 með því, að ráðherrar færu nú um allt og skrifuðu undir innistæðulausa samninga. Ég skora á Ingibjörgu Sólrúnu að birta dæmi um slíkar undirskriftir.