25.4.2007 21:39

Miðvikudagur 25. 04. 07.

Reykjavík suður var í brennidepli á Stöð 2 í kvöld og kom á óvart, að fylgi Sjálfstæðisflokksins var samkvæmt könnun félagsvísindastofnunar sagt um 10% minna, eða um 32%, en hjá Gallup fyrir fáeinum dögum. Að sjálfsögðu hafði enginn neina skýringu á þessari sveiflu.

Í tilefni þáttarins höfðu íbúar í Reykjavík suður verið spurðir um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og framtíð hans og vildi meirihlutinn um 52%, að hann yrði kyrr á sínum stað. Snerust umræðurnar við efstu menn á framboðslistunum að verulegu leyti um niðurstöður þessarar könnunar, sem getur þó varla þótt nokkrum tíðindum sæta í aðdraganda þingkosninganna, þar sem ekki er deilt um framtíð flugvallarins, enda verður hann á sínum stað til 2016.

Eiríkur Guðmundsson flutti ávarp í upphafi Víðsjár á rás 1 og sagði kosningabaráttunni þegar lokið, það væri ekki deilt um neitt og ekki annað rætt en úrslit skoðanakannanna. Ég átta mig ekki á því, hvernig Eiríkur telur, að kosningabaráttan eigi að vera - hitt er víst, að í þáttum í sjónvarpi og útvarpi eru það stjórnendur og fréttamenn, sem gefa tóninn og slá taktinn. Einfaldast er auðvitað að ræða um niðurstöður nýjustu könnunar eða taka eitthvert mál, sem er óleyst á líðandi stundu, og láta eins og það sé hneyskli, að úr því hafi ekki verið greitt fyrir 16 eða 12 árum.

Hvoru tveggja skilar jafnlitlu fyrir kósandann. Kosningabaráttunni er auðvitað ekki lokið og kannski nær hún sér á strik, það er þó mest undir stjórnarandstöðunni komið, sem hlýtur að vilja rugga bátnum, að sjálfsögðu þvert á vilka þeirra, sem sitja í ríkisstjórn.