20.4.2007 15:00

Föstudagur, 20. 04. 07.

Bjarni Torfason læknir skrifaði mig út af LSH í dag og nú er ég kominn heim að nýju. Batinn styrkist dag frá degi.

Nú hef ég síðan 5. febrúar með tiltölulega stuttu hléi dvalist fyrst í hálfan mánuð og síðan í 11 daga á deild 12 E á LSH við Hringbraut. Metnaðarfullt starf deildarinnar og framganga alls starfsfólks hennar vekur aðdáun og dagleg umönnun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er einstaklega alúðleg og góð. Hitt vita allir, að enginn fer á þessa deild eða aðra í skjúkrahúsi ótilneyddur, að baki sjúkrahúsdvölinni býr allan tímann vonin um skjótan bata og að geta komist heim til sín alheill sem fyrst. 

Ég er margsvísari um mannlífið, eftir að hafa dvalist þessa daga á LSH. Reynsla sem þessi hefur áhrif á lífsviðhorf og gildismat. Ef mér tekst að vinna úr henni á jákvæðan hátt, hef ég ekki aðeins náð góðri heilsu að nýju heldur einnig stækkað sjóndeildarhringinn.