12.4.2007 17:16

Fimmtudagur, 12. 04. 07.

Loftlekinn í lunganu hefur verið stöðvaður. Hann var farinn að hafa þau áhirf, að ég þandist út, vegna þess að loft fór undir húðina, meðal annars í andlitinu. Endurhæfing eftir aðgerðina hófst í dag.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er settur í dag og verð ég fjarri góðu gamni í fyrsta sinn síðan ég man eftir mér.

Samfylkingin er með landsþing á morgun. Fyrir fundinn er kynnt stefna flokksins í efnahagsmálum, samin af Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi ráðherra og bankastjóra Norræna fjárfestingabankans. Þegar Jón var í framboði hafði hann öruggt sæti, þótt aðrir þyrftu að hafa fyrir sínu með prófkjöri eða á annan lýðræðislegan hátt. Nú er efnahagsstefna Samfylkingarinnar samin og kynnt af Jóni tveimur dögum fyrir landsþing, þar sem sagt er, að móta eigi flokksstefnuna. Jafnaðarmennskan tekur á sig ýmsar myndir.