3.4.2007 9:27

Þriðjudagur, 03. 04. 07.

Í Fréttablaðinu í dag eru rifjuð upp gömul ummæli Össurar Skarphéðinssonar um íbúakosninguna í Hafnarfirði. Össur sagði, að Gestur Svavarsson vinstri/grænn heimtaði kosninguna og bætti við „Svo mínir menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir hleypa þessu lengra.“

2. apríl 2007 segir Össur á vefsíðu sinni:

„Ég er stoltur af þessari lýðræðislegu tilraun Samfylkingarinnar í Hafnarfirði um íbúalýðræði. Íbúalýðræði er skilgetið afkvæmi Samfylkingarinnar. Ég lagði sjálfur sem formaður Samfylkingarinnar fram á flokkstjórnarfundi á Akureyri skömmu upp úr 2000 tillögu um íbúalýðræði.“

Hvað skyldi Össur segja eftir fáeina daga, þegar hann áttar sig á afleiðingum þessa fljótræðis fyrir Samfylkinguna? Ætli hann fari aftur að tala um vitleysuna í Gesti Svavarssyni? Hafi vinstri/græn í Hafnarfirði ætlað að skapa vanda fyrir Samfylkinguna, tókst þeim það svo sannarlega.

Samfylkingin nötrar nú stafna á milli í Hafnarfirði vegna þess hve Lúðvík Geirsson bæjarstjóri misreiknaði sig herfilega. Lenínaðdáandinn ætlaði bæði að éta kökuna og eiga hana. Hann var sannfærður um, að deiliskipulagið yrði samþykkt, þótt hann hreyfði ekki litla fingur. Honum mistókst ætlunarverkið og stendur nú frammi fyrir fjöldaúrsögnum úr Samfylkingunni í Hafnarfirði. Hver eru viðbrögðin? Jú, Lúðvík er tekinn að spinna um aðrar leiðir fyrir ALCAN , deiliskipulagið hafi bara verið deiliskipulag, álverið geti aukið framleiðslu sína, hvað sem því líður.  

Össur Skarphéðinsson hefur dregið í land í varaliðsmálinu.

Í Fréttablaðinu í dag er stutt viðtal við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um varaliðshugmyndina, sem kom Össuri í álíka mikið uppnám og humynd Gests Svavarssonar um íbúakosninguna á sínum tíma. Össur sá varaliðsmenn gráa fyrir járnum, en nú hafa bæði Georg Lárusson, forstjóri landhelgisgæslunnar, og Stefán Eiríksson andmælt þessum skilningi Össurar. Hann reyndi að snúa út úr orðum Georgs sér í hag en segist taka mark á Stefáni og dregur orð sín um her í búningi varaliðs lögreglu til baka með þessum orðum:

„Þetta sýnir auðvitað betur en flest annað að Björn Bjarnason hafði ekki hugsað hugmyndina til enda þegar hann kastaði henni fram, enda tilgangurinn aðallega sá að stela sviðsljósinu frá öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokkurinn og sýna að þeir komast ekki í hálfkvisti við hann.“

Að sjálfsögðu hef ég hugsað þessa hugmynd til enda og veit, að í henni hefur aldrei falist neitt af því, sem Össur, Egill Helgason eða aðrir svipaðir spekingar hafa séð í henni - enda vakir ekki annað fyrir þeim en valda mér pólitískum skaða. Hitt er síðan til marks um viðhorf Össurar til stjórnmála, að lýsi stjórnmálamenn skoðun sinni á stórum pólitískum úrlausnarefnum eru þeir ekki að stofna til málefnalegra umræðna - heldur stela sviðsljósinu frá öðrum. Hann er greinilega ekki hrifinn af hvatningu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um umræðustjórnmálin - með stjórnmálaumræðum eru stjórnmálmenn aðeins að stela sviðsljósinu hver af öðrum.