26.4.2007 21:50

Fimmtudagur, 26. 04. 07.

Í dag var ritað undir samkomulag um öryggismál við Norðmenn og Dani í tengslum við utanríkisráðherrafund NATO-ríkjanna í Ósló. Valgerður Sverrisdóttir ritaði undir fyrir Íslands hönd en utanríkisráðherrar Dana og Norðmanna fyrir hönd ríkja sinna.

Framkvæmdin á þessu samstarfi tekur að sjálfsögðu mið af því, að við Íslendingar ráðum ekki yfir eigin herafla og leggjum ekki annað af mörkum en land og aðstöðu. Þá er rætt um að kostnaður vegna heræfinga lendi á okkar herðum, án þess að sagt sé, hve hann geti verið hár. Okkar er að sjálfsögðu að sjá um nægilegt öryggi á Keflavíkurflugvelli til að hervélar geti athafnað sig á vellinum. Utanríkisráðuneytið annast þennan þátt af framkvæmd samkomulagsins.

Samstarfið byggist á fleiru en aðstöðu fyrir hervélar þessara landa, því að gert er ráð fyrir því, að embættismenn og sérfræðingar hittist og beri saman bækur sínar auk þess sem samvinna verði efld milli lögreglu og landhelgisgæslu auk þess sem litið verði til samstarfs um almannavarnir. Þetta er borgaralegt samstarf á milli stofnana landanna, sem er þegar fyrir hendi, en mun aukast á grundvelli þessara pólitísku viljayfirlýsinga.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, er eins og í öðrum heimi, þegar hann vill þurrka út allt hernaðarlegt samstarf við aðrar þjóðir. Að sjálfsögðu er það út í hött, en samstarfið er sérkennilegt af okkar hálfu, þar sem íslensk stjórnvöld ráða ekki yfir neinum stofnunum, sem sinna hernaðarlegum verkefnum. Á hinn bóginn hefur markvisst verið unnið að því síðustu misseri að efla lögreglu og landhelgisgæslu til að takast á við ný og aukin verkefni.

Að bera samkomulagið við Norðmenn og Dani saman við varnarsamninginn við Bandaríkjamenn er fráleitt - hvorki Danir né Norðmenn ábyrgjast varnir Íslands á hættutímum og á vegum herstjórna þeirra verða ekki gerðar áætlanir um, hvernig verja skuli Ísland.