22.4.2007 21:00

Sunnudagur, 22. 04. 07.

Þegar ég gekk í Öskjuhlíðinni í dag heyrði ég í fyrsta sinn á þessu vori í lóu, en sá þó enga.

Fylgdist með franska kosningasjónvarpinu, þegar sagt var frá sigri Nicolas Sarkozys í fyrri umferð forsetakosninganna með um 30% atkvæða en Ségolene Royal varð í öðru sæti með um 25%. Næstu vikur verða spennandi, þegar frambjóðendur reyna að tryggja sér stuðning þeirra frambjóðenda, sem ekki náðu markmiði sínu í fyrri umferðinni.

Kommúnistar, vinstri/græn og aðrir til vinstri meða frambjóðenda voru fljót að lýsa yfir stuðningi við Royal. Francois Bayrou lenti í þriðja sæti með um 18% atkvæða, hann bauð sig fram sem miðjumaður en fylgi hans er fremur hægra megin en til vinstri, hið sama er að segja um fylgi Jean Marie le Pen, sem fékk um 11%, en enginn vill neitt með hann hafa að gera.

Þau Sarkozy og Royal fluttu langar þakkarræður, þar sem þau áréttuðu stefnumál sín og höfðuðu til samstarfs við aðra. Mönnum finnst stundum nóg um þjóðernistóninn í ræðum íslenskra stjórnmálamanna, en ég fullyrði, að hann er veikur miðað við það, hvernig franskir stjórnmálamenn tala um land sitt og þjóð á stundum sem þessum, þótt ekki þylji þeir ættjarðarljóð eða nefni þjóðskáld til sögunnar.

Mér þótti Sarkozy mælast betur en Royal fyrir utan hvað hún virkar köld og fjarlæg, þótt brosið sé bjart og hlýlegt.

Vandi franskra sósíalista er hinn sami og við blasir hér á landi um þessar mundir. Þeir eru sjálfum sér sundurþykkir og greinir á um of mörg mál innbyrðis til að vera trúverðugir út á við.

Mér er sagt, að í dag hafi Jón Baldvin Hannibalsson haldið áfram að tala niður til Samfylkingarinnar í Silfri Egils. Í gær birtist enn eitt einhvers konar uppgjörsviðtalið við hann í Blaðinu, sem Kolbrún Bergþórsdóttir, ævisagnaritari hans, skráði. Þar var einnig vegið að Samfylkingunni. Þá mun hafa komið fram í Silfri Egils, að þeir Jón Baldvin og Egill Helgason séu sammála um, að Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og bankastjóri, skuli boðinn fram sem fjármálaráðherraefni Samfylkingarinnar. Í því felst ekki mikil trautsyfirlýsing þeirra félaga við forystu Samfylkingarinnar.