30.4.2007 22:02

Mánudagur, 30. 04. 07.

Í dag 30. apríl eru rétt 16 ár frá því að Davíð Oddsson myndaði fyrsta ráðuneyti sitt og síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með forystu landsmála. Er þetta glæsilegasta framfaraskeið Íslandssögunnar.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sat fyrir svörum í Kastljósi í kvöld. Spyrlar héldu sig við þá furðulegu spurningatækni að hafa þann formála að flestum spurningum sínum, að nú hefði Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í 16 ár og samt ætti eftir að gera þetta eða hitt. Hefðu þeir spurt um hið sama fyrir 16 árum, eða 4 árum og þeim er efst í huga núna? Að sjálfsögðu ekki. Viðfangsefnin hafa breyst og eiga í raun ekkert skylt við, hvort flokkur hafi verið 16 ár í stjórn eða bara eitt ár.  Styrkur Sjálfstæðisflokksins felst ekki í því, hve lengi honum hefur verið treyst til forystu, heldur hve vel hefur tekist til við stjórn landsins undir forystu flokksins.

Ég skil ekki, hvers vegna Halldóri Ásgrímssyni er svona illa við EES-samninginn og hvers vegna hann sér ástæðu til þess að vera að hallmæla honum enn einu sinni. Samningurinn hefur dugað okkur Íslendingum mjög vel og hann er í fullu gildi. Nöldur í garð hans eða tal um að enginn viti um tilvist hans breytir engu um mikið gildi hans fyrir okkur og aðra aðila hans. Samingurinn er sérstakur að því leyti, að hann staðnar ekki.

Myndin Good night, Good luck um Ed Murrow hjá bandarísku CBS-sjónvarpsstöðinni og átök hans við Joe McCarthy í upphafi sjötta áratugarins sýnir, að við suma menn þýðir ekki að eiga orðastað en hins vegar hefur áhrif að vekja athygli á starfsaðferðum þeirra. Þá opnast augu manna. Kristján Albertsson beitti þessari aðferð á sínum tíma í baráttunni við Jónas frá Hriflu. Aðferðin dugar best, þegar tekist er á um mál, sem einkennast af ofstækisvilja.