23.4.2007 21:58

Mánudagur, 23. 04. 07.

Sagan geymir dæmi um, að fyrir kosningar hafi stjórnmálamenn nefnt ákveðna hundraðstölu um væntanlegt fylgi og sagt, að næðu þeir ekki þeirri tölu, ætluðu þeir ekki að setjast í ríkisstjórn að kosningum loknum - þeir ætluðu þess í stað að sleikja sárin og hugsa sinn gang, án þess að bera ábyrgð á landstjórninni. Yfirlýsingarnar eru gefnar í trausti þess, að þær hvetji kjósendur til fylgis við þann, sem gefur þær og styrki hann. Þetta gerist þó ekki alltaf og dæmi eru um, að vegna fljótræðis af þessu tagi sitji menn með sárt enni að kosningum loknum, séu í mun verri stöðu en úrslitin sjálf skapa þeim.

Nýjasti þátturinn í sápuóperu Samfylkingarinnar snýst um, að þau Össur og Ingibjörg Sólrún hafi sæst heilum sáttum og hún hafi jafnvel velt því fyrir sér að hætta í stjórnmálum, eftir að hún hrökklaðist frá sem borgarstjóri til að hefja afskipti af landsmálum.

Þáttur um þetta efni mun hafa sýndur á Stöð 2 í kvöld, samkvæmt fréttum stöðvarinnar. Hvaða áhrif skyldu þessar játningar hafa á Jón Baldvin Hannibalsson, samvisku Samfylkingarinnar? Eykst áhugi hans á að kjósa flokkinn? Við hljótum að frétta af því í næsta þætti af Silfri Egils eða næsta uppgjörsviðtali Korlbrúnar Bergþórsdóttur í Blaðinu.  Þeir, sem eru að verða miður sín af spennu, geta huggað sig við, að þáttaröðinni um Samfylkinguna lýkur 12. maí.

 

 

Grein