7.4.2007 19:07

Laugardagur, 07. 04. 07.

Rúmlega 55% landsmanna hafa jákvætt viðhorf til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, en tæplega 19% eru neikvæð gagnvart honum. Þetta kemur m.a. fram í símakönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 28. mars til 2. apríl um viðhorf til formanna stjórnmálaflokkanna. Fleiri höfðu jákvæða afstöðu en neikvæða gagnvart tveimur öðrum formönnum stjórnmálaflokka; Steingrími J. Sigfússyni formanni Vinstri grænna og Ómari Ragnarssyni formanni Íslandshreyfingarinnar. Steingrímur er sá formaður sem kemur næstur Geir í vinsældum en jákvæði gagnvart honum mældist rúm 50%.

Fleiri höfðu neikvæða afstöðu en jákvæða gagnvart þremur formönnum stjórnmálaflokka; Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins, og Guðjóni A. Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins. Ingibjörg Sólrún er sá formaður sem flestir voru neikvæðir gagnvart eða rúm 50%.

Spurning er, hvað Samfylkingin gerir núna. Fyrr í vetur beitti hún sér fyrir greinaskrifum til að sýna og sanna, að Ingibjörg Sólrún sætti ómaklegum ofsóknum. Þá var tekið til við að hallmæla Staksteinahöfundi Morgunblaðsins, og var honum lýst sem upphafi og endi alls hins illa um Ingibjörgu Sólrúnu. Nú síðustu daga hefur verið leitast við að lyfta Ingibjörgu Sólrúnu á fundi með Össuri Skarphéðinssyni.  Árangur þessarar baráttu er greinilega lítill sem enginn. Eftir viku verður leitast við að hefja Ingibjörgu Sólrúnu á nýjan stall með því að kalla forystukonur jafnaðarmanna í Danmörku og Svíþjóð til að styrkja hana á þingi Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún ætti að gleðjast yfir því, að upphefð hennar kemur að utan. Hitt er einnig vitað, að jafnaðarmenn á Íslandi hafa einkum glaðst yfir sigrum erlendis undanfarin misseri.