Sunnudagur, 08. 04. 07 - páskadagur.
Fór í morgun í hátíðarmessu í Kristskirkju.
Á murinn.is las ég þetta:
„Þessa dagana falla vel í kramið hugmyndir Margrétar Pálu Ólafsdóttur um að leið til að frelsa konur frá launamisrétti sé að breyta rekstrarfyrirkomulagi ríkisrekinna almenningsskóla og umönnunarstofnana. Gott ef satt væri en er málið svo einfalt?
Tökum dæmi um laun kennara í skólakerfinu í Bandaríkjunum en bent hefur verið á að skólakerfið á Íslandi hafi að mörgu leyti þróast með sambærilegum hætti og það bandaríska en formbreytingar eigi sér stað hér 10-20 árum síðar.“
Margrét Pála hefur kynnt þessi sjónarmið sín víða og talar um málin frá eigin reynslu hér á landi. Hvers vegna kýs höfundurinn á murinn.is af því tilefni að fara að tala um Bandaríkin? Hvað hefur hann fyrir sér, um að þróun íslenska skólakerfisins sé að þessu leyti eða öðru 10 til 12 árum á eftir hinu bandaríska? Búa einhverjar rannsóknir að baki þeirri fullyrðingu? Er ekki einfaldara að taka bara mark á því, sem Margrét Pála segir og huga að því, sem hér er að gerast?
Samfylkingin talar eins og Ísland verði að að breytast í eitthvert Norðurlandanna, annars sé voðinn vís, og vinstri/grænir á murinn.is láta eins og hið hræðilegasta gæti gerst, ef Ísland yrði eins og Bandaríkin. Hvers vegna dugar þessum flokkum ekki að tala um Ísland eins og það er og þróun íslensks samfélags eftir eigin leiðum?
Íslendingar hafa átt gott samstarf við Norðurlöndin og Evrópuríki á sama tíma og tengslin við Bandaríkin hafa verið mikil og náin. Innan þessara marka hafa framfarir orðið hér örar og hagur þjóðarinnar batnað ár frá ári. Við þurfum hvorki dollar né evru til að njóta okkar og við breytumst heldur aldrei og verðum eins og Bandarjamenn eða þjóðir annars staðar í Evrópu.
Hér hefur komið í ljós hin síðari ár, að breyting á ríkisrekstri með einkavæðingu hefur valdið þáttaskilum í efnahags- og atvinnumálum. Þá sanna dæmi héðan, að aukin hlutdeild einkaframtaksins í háskólarekstri hefur valdið þáttaskilum í háskólastarfsemi. Margrét Pála hefur sýnt og sannað hið sama með einkaframtaki við rekstur leikskóla og grunnskóla. Við þurfum hvorki að fara til Bandaríkjanna né annað til að sannreyna þetta. Hið eina sem þarf er vilji til að halda áfram á sömu braut á fleiri sviðum og með eigin reynslu að leiðarljósi.